136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að elta ólar við það sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson sagði en rifja aðeins upp að Hvalfjarðargöngin voru grafin á grundvelli laga sem samþykkt voru á Alþingi vegna samnings sem þáverandi hæstv. samgönguráðherra, núverandi hæstv. fjármálaráðherra, gerði. Hann gerði samning við Spöl um hvernig standa ætti að því að grafa jarðgöngin og það mætti taka gjald af þeim. Gerður var samningur sem er í gildi og var ekki hægt að rifta honum nema því aðeins að ríkið greiddi upp þetta gjald.

Það sem ég dreg hér fram og sýni fram á er hversu óábyrgt þetta kosningaloforð hjá Samfylkingunni var þegar samfylkingarmenn lýstu yfir að taka ætti úr ríkissjóði þá milljarða sem gjaldið gefur og greiða upp skuldina sem Spölur var með á sínum herðum. En ekkert hefur bólað á þessum tillögum. Samgönguáætlun sem átti að endurskoða árið 2008 hefur ekki verið endurskoðuð. Það bólar ekkert á tillögum um það. Þess vegna hef ég spurt: Hvenær ætlar Samfylkingin að leggja endurskoðaða samgönguáætlun fyrir þingið? Ætlar hún að gera það áður en þingið fer heim fyrir kosningar, að koma með endurskoðaða samgönguáætlun sem gerir ráð fyrir því m.a. að gjaldið verði fellt niður?

Það er auðvitað miklu lægri upphæð núna sem Spölur skuldar og á eftir að greiða niður vegna þess að umferðin hefur aukist jafnt og þétt og er miklu léttara fyrir ríkissjóð að taka að sér þetta gjald nú en var fyrir fimm árum síðan. Þess vegna hljótum við að velta því fyrir okkur: Hvernig ætlar Samfylkingin að standa við þetta mikilvæga kosningaloforð frá því fyrir kosningarnar 2007? Við hljótum að spyrja um það. Ég vísa því algerlega á bug að það hafi verið í höndum þingmanna Norðvesturkjördæmis að breyta fjárlögum eða samgönguáætlun. Þó að við séum öflugir ráðum við því ekki. (Gripið fram í.) Það voru ríkisstjórnarflokkarnir, (Forseti hringir.) það var samgönguráðherrann sem átti að fylgja þessu máli eftir, að sjálfsögðu.