136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[13:50]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er sjálfsagt eðlilegt að þessi athugasemd komi upp en ég ætla líka að vekja máls á því að þetta álitamál kom til umfjöllunar á vettvangi efnahags- og skattanefndar, nákvæmlega það sem hv. þingmaður er hér að tala um. Það sem við verðum að hafa í huga er að breytingin sem verið er að gera á lögunum um virðisaukaskatt er að auka endurgreiðsluhlutfallið úr 60% í 100%, það er ekki verið að gera neinar aðrar breytingar á frumvarpinu. Það sem hv. þingmaður kallar misræmi — það var upplýst í efnahags- og skattanefnd að þetta ákvæði hefur verið skilgreint þannig af ríkisskattstjóra að endurbótaverkefnin eigi jafnframt við um það sem unnið er á byggingarstað alveg eins og með nýbyggingarnar sjálfar. Það er sú framkvæmd sem ríkisskattstjóri hefur viðhaft og byggir vafalaust á lögskýringargögnum með þessu máli þegar það var afgreitt á sínum tíma.

Hér er ekki verið að fjalla um neinar breytingar á þessum forsendum. Hér er bara verið að fjalla um hækkunina á endurgreiðsluhlutfallinu úr 60% í 100%. Að öðru leyti er framkvæmd laganna með sama hætti og verið hefur til þessa og einnig að því er lýtur að þessu atriði. Það hefur verið skilningur manna, og ríkisskattstjóri hefur framkvæmt þetta þannig, að hvað varðar endurbóta- og viðhaldsverkefnin sé endurgreiðslan miðuð við slík verkefni sem unnin eru á byggingarstað alveg eins og með nýbyggingar þannig að þar er ekkert misræmi á milli.

Vel kann að vera að menn geti sett spurningarmerki við hvort sú framkvæmd stenst orðalag laganna en þá þyrftu menn að líta í lögskýringargögn frá því að frumvarpið var samþykkt á sínum tíma en í þessu frumvarpi er engin breyting gerð hvað þetta snertir. Það er þá annað mál sem þyrfti að skoða, þ.e. framkvæmd laganna sjálfra, menn geta spurst fyrir um það hjá ríkisskattstjóra og þá hugsanlega beitt sér fyrir breytingum ef menn telja það nauðsynlegt hvað þetta atriði varðar.