136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[20:29]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það vakti athygli mína að hæstv. fjármálaráðherra sleppti úr nokkrum liðum í þessari þingsályktunartillögu og væri reyndar ágætt að hann færi yfir þá vegna þess að hann hafði auðvitað ekki of langan tíma í upphafi.

Varðandi 17. liðinn þá talaði ég fyrr í kvöld um að íslensk dótturfyrirtæki sem starfa erlendis eru auðvitað skattlögð. Í 17. lið þessarar tillögu framsóknarmanna stendur:

„Skattar verði lagðir á eignir erlendis.“

Hvað eru eignir? Það eru væntanlega húseignir og það vita náttúrlega allir að dótturfyrirtæki sem starfa erlendis eru skattlögð eins og móðurfyrirtækin. Þetta er hlutur sem er kannski rétt að ræða í þessum þætti.

Ég vil svo þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir yfirferð sína og ég sé ekki betur en að ég sé sammála honum þar í flestum atriðum. Það er bara þannig að niðurfellingu skulda er ekki hægt að framkvæma með neinni barbabrellu, einhverjir munu verða að borga. Þess vegna segi ég enn og aftur að þessi tilraun framsóknarmanna til að slá sig til riddara og til að reyna hreinlega að blekkja fólk til stuðnings við sig er ekki heiðarleg. Þeir ættu sjálfir að fara í gegnum þessar 18 tillögur sínar og endurskoða þær og þá með kannski einhverjum öðrum hagfræðingum eða ráðgjöfum en þeir hafa haft.