136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

stuðningur við íslenskan landbúnað.

379. mál
[14:44]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Arnbjörg Sveinsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Í landbúnaðinum þrengir að eins og annars staðar og ljóst er að grípa verður til aðgerða til að styðja við atvinnugreinina og er bráðavandinn efni í aðra fyrirspurn um þetta efni. Þær aðstæður sem sköpuðust í haust sýndu mörgum skýrar fram á mikilvægi landbúnaðarins og matvælaöryggið, og er það út af fyrir sig jákvætt. En tækifærin til nýsköpunar leynast víða í greininni og ekki þarf síður að hlúa að því sem fyrir er þannig að það geti þrifist sæmilega áfram.

Við þekkjum dæmi um vel heppnaða nýsköpun í landbúnaði sem á að vera okkur mikil hvatning til frekari verka. Þar má nefna kornrækt sem hefur farið vaxandi og í dag er staðan þannig að helmingur alls byggs sem notað er hér á landi er innlend framleiðsla. Skógræktin er annað dæmi um slíkt en skógarbændur gera sig sífellt meira gildandi og afraksturinn af starfi þeirra verður sýnilegri með hverju árinu. Einnig eru fleiri tækifæri sem rétt er að huga að eins og verkefnið Beint frá býli. Ég nefni líka Austfirskar krásir og fleiri verkefni mætti nefna sem tengjast möguleikum í ferðaþjónustu.

Hæstv. forseti. Öll nýsköpun og vöruþróun er til lítils ef grunnurinn er ekki traustur. Búreksturinn verður að ganga sæmilega ef menn ætla að færa út kvíarnar og reyna fyrir sér á nýjum slóðum. Þess vegna er brýnt að landbúnaðarráðherra deili með okkur í dag stefnu sinni er varðar stuðning við íslenskan landbúnað til framtíðar. Eru til að mynda einhverjar líkur á því að átt verði við búvörusamningana og undirstöðum þeirra raskað með einhverjum hætti? Geta menn treyst því að ráðherra muni ekki taka upp búvörusamningana og þeir haldi út gildistíma sinn?

Nauðsynlegt er fyrir menn að vita að hverju þeir ganga. Haraldur Benediktsson lýsti því í viðtali við Bændablaðið 26. febrúar sl. að hann og fyrrverandi landbúnaðarráðherra, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, hefðu rætt ákveðnar hugmyndir um útfærslu búvörusamninga. Þar lýsir hann því jafnframt að hann hafi kynnt núverandi landbúnaðarráðherra þær hugmyndir og þá spyr ég: Hver er hugur ráðherrans gagnvart þeim hugmyndum? Ekki væri úr vegi að fá þær fram hér. Hvernig ætlar ráðherrann að snúa sér gagnvart bændum í þessu máli? Ég spyr einnig: Hefur ráðherra hugsað sér að fara á undan WTO-samningunum eins og þeir hafa verið að þróast og fara út í grænar greiðslur í meiri mæli en nú tíðkast hér á landi? Grunnspurningin er: Eru stórfelldar breytingar fyrirhugaðar hjá hæstv. ráðherra varðandi undirstöðurnar í landbúnaðinum?