136. löggjafarþing — 123. fundur,  1. apr. 2009.

réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar.

259. mál
[18:55]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég heyri það á máli þingmanna að góð sátt er um þetta mál og þetta hafa verið góðar umræður. Hv. þm. Dögg Pálsdóttir fór yfir mjög mikilvægt mál sem snýr að því hvernig best sé að haga líffæragjöf almennt. Það er auðvitað mjög stórt mál og hv. þm. Dögg Pálsdóttir vísaði í það hvernig best væri að haga þessu og vísaði í staðreyndir um það hvernig við stöndum í samanburði við önnur lönd þegar kemur að líffæragjöf. Sem betur fer stöndum við nokkuð vel. Það land sem stendur best hvað þetta varðar er Spánn en við erum í flokki landa sem koma næstbest — ef ég man rétt, virðulegi forseti, þá erum við framarlega á þessu sviði þó svo að við, eins og hv. þm. Dögg Pálsdóttir kom inn á, ættum að setja markið hærra því að hér er um gríðarlega mikilvæga hluti að ræða.

Ég setti á fót starfshóp til að skoða þessi mál sérstaklega í minni ráðherratíð og skoða það sérstaklega hvort skynsamlegt væri að setja um það lög að það væri skylda að gefa líffæri nema viðkomandi hefði tekið það fram að hann væri því ekki fylgjandi. Eftir að vinnuhópurinn hafði skoðað þetta, undir forustu Sveins Magnússonar, yfirlæknis í heilbrigðisráðuneytinu — hafði m.a. kynnt sér reynslu annarra landa, t.d. Spánar — kom í ljós að almenna reglan er sú að jafnvel þó að lagasetning af því tagi sé til staðar í landi, eins og er t.d. á Spáni, er hún samt sem áður ekki notuð. Ekki eru tekin líffæri úr þeim sem falla frá nema aðstandendur gefi samþykki sitt. Niðurstaðan í þeim vinnuhópi var sú að til staðar yrðu vel þjálfuð teymi, og ýmislegt annað sem því tilheyrir, til að bregðast við þegar aðstæður af þessum toga koma upp, mest var lagt upp úr því.

Virðulegi forseti. Þetta tengist auðvitað því máli sem hér er á dagskrá. Þetta eru mikilvæg mál og við ættum að gera meira af því að ræða mál eins og þessi í þinginu. Það einstaka mál sem hér er á dagskrá snýr hins vegar að — og ég heyri það á mæli þingmanna að góð sátt er um það — fjárhagslegri afkomu þeirra sem leggja það á sig í lifanda lífi að gefa líffæri, og þá er ýmist um að ræða nýra eða hluta lifrar. Í þessu máli er verið að reyna að koma í veg fyrir að viðkomandi einstaklingur verði fyrir tekjutapi ef hann er svo göfugur, svo ég noti það orð, að gefa úr sér líffæri.

Ég vona að frumvarpið, verði það að lögum, tryggi að slíkt muni ekki gerast, að fólk sem gefur líffæri geti verið öruggt um að það beri ekki af því fjárhagslegan skaða. Ég tel það afskaplega mikilvægt. Ég get ekki lýst því nógu vel hversu ánægður ég er með þetta mál, enda tengist ég því. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir veit að frumvarpið er byggt á niðurstöðu hóps sem ég, sem ráðherra, og félags- og tryggingamálaráðherra settum á laggirnar í nóvember 2007. Þó það nú væri að þessi minnihlutastjórn stoppi ekki það mál, virðulegi forseti. Þetta mál er runnið undan rifjum ríkisstjórnar sem stóð sig miklu betur en sú verklitla ríkisstjórn sem er til staðar núna.

Virðulegi forseti. Það er kannski ekki alveg það mál sem við ræðum nú en því miður er ég hræddur um að við þurfum að ræða það mál eins og önnur sem tengjast vinnubrögðum. Við sjáum hér í dag mun alvarlegri vinnubrögð en við höfum séð í langan tíma hér á Alþingi Íslendinga, og kannski aldrei áður. Öll dagskráin og vinnubrögðin eru þess eðlis að það hjálpar ekki til fyrir fólkið í landinu.