136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

umræða um dagskrármál.

[14:37]
Horfa

Björn Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég harma það eins og aðrir þingmenn að hæstv. forseta þingsins hefur ekki tekist að ná sátt um meðferð mála. Eitt er að forseta þingsins mistekst að ná sátt um meðferð mála, annað er að hv. þingmenn, eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, standi upp og hefji umræður undir þessum dagskrárlið, um fundarstjórn forseta, á þann veg sem gert var. Það er vísasti vegurinn, virðulegi forseti, til þess að umræður um þennan lið, um fundarstjórn forseta, verði langar þegar gengið er fram með þessum hætti.

Ég sé mig knúinn til að koma aftur upp, virðulegi forseti, og hvetja til þess að virðulegur forseti beiti sér fyrir því að staðið verði þannig að málum að unnt verði að vinna þingstörfin í sæmilegri sátt. Þegar hv. þm. Árni Þór Sigurðsson gengur fram með þessum hætti er búið að rjúfa þann frið sem var þó verið að reyna að mynda væntanlega í hádeginu. Ég sé ekki annað en málið sé komið í algert óefni aftur og ég hvet hæstv. forseta til að gera nú hlé á fundinum til að reyna að koma þingstörfunum í sæmilegt horf.