136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:35]
Horfa

Kristrún Heimisdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög mikilvæg umræða og staðreyndin er auðvitað sú að í íslensku stjórnarskránni hefur frá upphafi verið kveðið á um hvernig henni skuli breyta. Staðreyndin er sú að sú aðferð hefur ekki reynst okkur vel vegna þess að ekki hefur tekist að þróa stjórnarskrána eftir því sem kröfur nútímans til frjálslynds lýðræðis hafa kallað eftir eða mundu kalla eftir. Og í raun og veru hafa Íslendingar aldrei sett sér eigin stjórnarskrá vegna þess að því verkefni var frestað 1944 þegar lýðveldið var stofnað.

Vegna þess sem þingmaðurinn sagði um fagleg vinnubrögð, þrána eftir vísindalegum vinnubrögðum og nýrri aðferðafræði í setningu laga og sérstaklega stjórnarskrár, vil ég bara benda á að ég held að ekki séu mörg dæmi um vandaðri vinnu en niðurstöðu auðlindanefndarinnar sem mig minnir að hafi komið út árið 2000. Þá voru forustumenn á sínum sviðum settir saman í kringum borð. Formaðurinn var, eins og ég nefndi áðan, fyrrverandi seðlabankastjóri, (Forseti hringir.) Jóhannes Nordal, og ég hefði haldið að Sjálfstæðisflokkurinn, sem skipaði þessa nefnd, mundi vilja fylgja því máli eftir en einhverra hluta vegna hefur það beðið í tíu ár, (Forseti hringir.) sem fyrir mér er óskiljanlegt.