137. löggjafarþing — þingsetningarfundur

forseti Íslands setur þingið.

[14:17]
Horfa

Forseti Íslands (Ólafur Ragnar Grímsson):

Hinn 10. maí 2009 var gefið út svofellt bréf:

„Forseti Íslands gjörir kunnugt:

Ég hefi ákveðið, samkvæmt tillögu forsætisráðherra, að Alþingi skuli koma saman til fundar föstudaginn 15. maí 2009.

Um leið og ég birti þetta, er öllum sem setu eiga á Alþingi, boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur og verður þá Alþingi sett að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni er hefst kl. 13.30.

Gjört á Bessastöðum, 10. maí 2009.

Ólafur Ragnar Grímsson.

__________________

Jóhanna Sigurðardóttir.

Forsetabréf um að Alþingi skuli koma saman föstudaginn 15. maí 2009.“

Samkvæmt bréfi því sem ég hef nú lesið lýsi ég því yfir að Alþingi Íslendinga er sett.

Það kemur nú saman í fyrsta sinn eftir að þjóðin hefur kveðið upp sinn dóm, vegið og metið stefnur og strauma, málflutning og fyrirheit. Kosningarnar fela í sér að umboð er veitt; alþingismönnum falinn æðsti trúnaður sem hugsjónin um lýðræðið hefur helgað: að fara um sinn með valdið sem íslensk stjórnskipun kveður þó á um að hvíli áfram hjá þjóðinni sjálfri.

Í kjölfar bankahrunsins og áfalla í efnahagslífi, tíðra mótmæla á Austurvelli og átaka hér við Alþingishúsið var í byrjun febrúar mynduð ríkisstjórn til bráðabirgða og um leið ákveðið að leita til þjóðarinnar, treysta því að dómstóllinn sem hin lýðræðislega stjórnskipun Íslendinga byggir á, fólkið í landinu, mundi vísa veginn.

Aldrei fyrr hefur alþingiskosningar borið að með slíkum hætti og mikilvægt að geta nú fagnað því að þjóðin tók af öryggi og festu valdið sem henni bar í sínar hendur. Það sýnir styrk lýðræðisins meðal okkar og rætur þess í hugum fólksins, hefðum og siðum sem allir virða.

Þótt eðlilega sýnist sitt hverjum um úrslitin hlýtur sérhver Íslendingur, og þá jafnframt þingheimur í þessum sal, að þakka fyrir þá forsjá fyrri kynslóða að hafa mótað hér stjórnskipun og lýðræðislegt samfélag sem stóðst hina miklu þolraun, liðaðist ekki í sundur vegna átaka og erfiðleika sem sagan sýnir að lamað hafa ýmis ríki.

Alþingi er elsta stofnun Íslendinga, eldri en kirkjan, hin kristna trú í landi okkar, fylgdi þjóðinni um aldir áþjánar og konungdæmis, varð helsti vettvangur baráttunnar fyrir sjálfstæði og síðar ákvarðana sem skiluðu þjóðinni úr fátækt til framfara, festu í sessi velferðarskipan, réttindi til menntunar og umönnunar sem nú eru burðarásar í samfélagslegum vörnum okkar.

Þingræði er í senn samgróið lýðræðisskilningi Íslendinga og sú stjórnskipun sem þjóðir Evrópu hafa kosið sér, bæði þær sem lengi hafa stjórnað eigin málum og eins hinar sem nýlega fögnuðu fullu frelsi.

Alþingi ber í sér samhengið í íslenskri sögu, frá þjóðveldistíð til okkar daga, og vitnisburð um að á síðari öldum hefur þjóðin talið vænlegast að fylgja þeirri stjórnskipun sem er helsta framlag Evrópu til lýðræðis í heimsbyggðinni.

Því er í senn heiður og ábyrgð að taka hér sæti.

Í umræðum um breytingar á stjórnskipun ber að huga vel að sögu Íslendinga, ekki bara nýliðinni heldur einnig aldanna rás, og líka að hinum evrópsku þingræðishefðum, meta hvers vegna álfan sem við tilheyrum hefur kosið sér slíkt lýðræðisform.

Þá er einnig gagnlegt að ræða niðurstöður víðtækra rannsókna í ýmsum fræðigreinum sem á undanförnum áratugum hafa sýnt að siðir og venjur, skipulag og starfshættir stjórnmálaflokka, félagasamtaka og fjölmiðla skipta sköpum fyrir virkni og trúverðugleika lýðræðis. Það sem stundum er nefnt hin stjórnmálalega siðmenning getur ekki síður en einstök ákvæði stjórnarskrár ráðið úrslitum um farsælt og árangursríkt stjórnarfar.

Allt þetta verðum við að hafa í huga þegar svarað er kalli um nýja tíma, þegar glíman við efnahagslega erfiðleika er tengd umræðum um stjórnarskrá.

Þótt margt megi sannarlega bæta í stjórnskipun landsins blasir engu að síður við sú staðreynd að stjórnarskráin sem þjóðin samþykkti við lýðveldisstofnun dugði vel þegar mest á reyndi. Þjóðinni var fært það vald sem hún kallaði eftir, alþingiskosningar fóru fram, ríkisstjórn með meiri hluta að baki sér kemur til hins nýja þings og víðtækari breytingar hafa orðið á löggjafarstofnuninni en nokkru sinni á lýðveldistíma.

Alþingis bíða síðan erfiðari verkefni en oftast áður, endurreisn fjármálakerfis, atvinnulífs og heimilanna, að tryggja velferð þúsundanna sem glíma nú við atvinnuleysi, tekjutap og eignamissi, að efla umsvifin í byggðum landsins, allt sem til heilbrigðra framfara horfir.

Þótt margir búi við erfiðleika setur baráttuandi svipmót á hundruð vinnustaða til sjávar og sveita, bæði í nýjum og hefðbundnum greinum. Viðspyrnu er sem betur fer víða að finna, tækifærin ærið mörg til öflugrar sóknar.

Með þjóðinni býr mikill kraftur og því áríðandi að Alþingi veiti þá forustu sem kallað er eftir, láti ekki ágreining koma í veg fyrir að við náum að virkja þjóðarvilja og sækja saman fram til betri tíma.

Á komandi árum þurfum við Íslendingar ríkulega á samstöðu að halda og ég heiti á nýkjörna alþingismenn að hafa þjóðarheill í huga, einkum nú þegar saman fara glíman við kreppu efnahagslífsins, krafan um endurskoðun stjórnskipunar og áformin um að leita samninga um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Hvert þessara verkefna er ærin þraut en þegar þau koma öll saman getur vandinn orðið meiri en Alþingi hefur áður kynnst.

Því er brýnt að sérhver þingmaður hafi í krafti trúnaðarins, umboðsins sem þjóðin veitti, ávallt hugfast að á hinum nýju tímum þarf að efla samstöðu Íslendinga, varðveita þá einingu sem er forsenda árangurs.

Slíkum vegvísi er á engan hátt auðvelt að fylgja en við höfum heldur aldrei fyrr verið í þessum sporum.

Enn eru hér alþingismenn sem kynntust því á yngri árum hvernig ágreiningur um tengslin við önnur ríki klauf þjóðina í herðar niður, sundraði samstöðu á örlagastundum.

Allir vita að umræðan um aðild Íslands að Evrópusambandinu getur orðið, ef illa tekst til, efniviður í slíkan klofning og því þarf öll meðferð málsins að vera með þeim hætti að sem flestir verði sáttir.

Rökin bæði með og á móti eru svo efnisrík að sérhverjum ber að virða málflutning hinna, gæta hófs, viðurkenna að málið snertir svo sögu, sjálfsvitund og framtíðarsýn Íslendinga að strengir röksemda og heitra kennda munu ætíð hljóma í senn.

Við þurfum öll að hafa í huga, hvaða stöðu sem við gegnum eða hver sem afstaðan er til aðildar, að í þessum efnum er það þjóðin sem ræður. Okkar skylda er fyrst og fremst að búa málið vel í hennar dóm, að forðast eftir fremsta megni að úrslitin skilji eftir djúpstæða gjá.

Á þessum sögulegu tímamótum hvílir einstæð ábyrgð á herðum alþingismanna. Ég óska þingheimi öllum farsældar í vandasömum ákvörðunum, heilla í sérhverju verki, býð þingmenn sem kjörnir hafa verið í fyrsta sinn velkomna hér til starfa og flyt um leið þeim sem hurfu af þingi þakkir fyrir framlag þeirra.

Með þessum orðum bið ég þingheim að rísa úr sætum og minnast ættjarðarinnar.

 

[Þingmenn risu úr sætum og forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, mælti: „Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.“ Tóku þingmenn undir þau orð með ferföldu húrrahrópi.]

 

Samkvæmt 1. gr. þingskapa ber nú þeim þingmanni sem lengsta fasta þingsetu hefur að baki að stjórna fundi þangað til forseti Alþingis hefur verið kosinn og bið ég Jóhönnu Sigurðardóttur, 1. þm. Reykv. n., að ganga til forsetastóls.

 

[Strengjakvartett flutti lagið Hver á sér fegra föðurland. ]