137. löggjafarþing — 2. fundur,  18. maí 2009.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:29]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Bhr):

Kæru landsmenn. Þessi ríkisstjórn hefði lagt fram frábæra stefnuskrá ef hún hefði verið sett saman fyrir árið 2006. Stjórnarsáttmálinn hefði án efa komið þjóðinni að verulegu gagni í góðærinu, en ríkisstjórnin virðist ekki vera meðvituð um að við erum tæknilega séð gjaldþrota þjóð. Þessi stjórn hefur um margt góðan vilja og margt í þeirri stefnu sem Borgarahreyfingin getur stutt varðandi lýðræðisumbætur. Stjórnin hefur sett frábært fordæmi fyrir ný vinnubrögð á þinginu með því að leggja ESB-málið í dóm samvisku sérhvers þingmanns óháð flokkslínum. Þarna er kominn vísir að vinnubrögðum sem við viljum upplifa á þinginu.

Þegar ég las verkefnalista sumarþingsins varð ég satt best að segja reið, öskureið, vegna þess að sá listi endurspeglar ekki brýna þörf á neyðaraðgerðum til að hjálpa fjölskyldum í landinu, reið því að ég upplifi eins og svo margir aðrir að ráðamenn hafa ekki fullan skilning á því hörmulega óréttlæti sem við höfum orðið fyrir og virðast ekki skynja umfang neyðarinnar. Það þýðir ekkert að vera með bómullaraðgerðir eða málamiðlanir til að þóknast öllum hagsmunasamtökum á meðan þjóðinni er að blæða út. Nú þurfa stjórnvöld að sýna okkur að þau hafi þor og vilja til að forgangsraða rétt, sýna að þau setji fjölskyldurnar í fyrsta sæti en ekki fjármagnseigendur.

Samkvæmt því sem komið hefur fram telur ríkisstjórnin að þær aðgerðir sem hún hefur boðað séu nægilega góðar til að hjálpa nauðstöddum. Því mun ekkert verða gert á þessu sumarþingi til að bregðast við neyðarópum almennings um hjálp. Við verðum einfaldlega að hugsa út fyrir rammann, taka af hugrekki ákvarðanir sem litast ekki af flokkadráttum og valdapólitík. Það er ekkert réttlæti í því að veðsetja vinnu Íslendinga til næstu 70 ára til að borga skuldir sem þjóðin efndi aldrei til.

Það verður engin þjóðarsátt fyrr en forgangsröðunin verður rétt hjá núverandi ríkisstjórn. Það verður engin þjóðarsátt nema skuldastaða heimilanna verði leiðrétt með stórum heildrænum aðgerðum sem koma heimilunum strax til bjargar áður en fólk gefst hreinlega upp.

Kæru landsmenn. Þjóðin hefur verið beitt miklu óréttlæti. Það verður að draga einhverja til ábyrgðar á því hruni sem við sjáum enn ekki fyrir endann á. Það er mikil reiði í samfélaginu. Ef enginn verður sóttur til saka og eigur þeirra sem enn svíkja og pretta fyrir opnum tjöldum frystar á meðan rannsókn stendur mun skella á önnur bylting, bylting fólks sem hefur engu að tapa. Það er einfaldlega ekkert réttlæti í því að þeir aðilar sem hafa hneppt komandi kynslóðir í rammgert skuldafangelsi gangi enn lausir á meðan aðrir eru fangelsaðir og sektaðir fyrir að stela sér í matinn. Ósjálfrátt eru hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar grunaðir um hagsmunatengsl.

Endurreisnin verður að fela í sér von, von um réttlátt samfélag sem er ekki gróðrastía svika og pretta. Vonin kviknar þegar ljóst er að hér verður tekið föstum tökum á spillingu og að tilgangur sé með því að fórna sér enn og aftur fyrir samfélagið sem við búum í. Ef hér verða ekki gerðar nauðsynlegar stjórnsýslubreytingar og lýðræðishallinn réttur af mun fólk eiga það á hættu að lenda í sömu stöðu áður en langt um líður.

Það er því miður staðreynd að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stjórnar fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar. Við megum ekki láta þau fjölmörgu varnaðarorð sem við höfum fengið um þá vá sem við stöndum frammi fyrir sem vind um eyru þjóta. Auðlindir okkar og sjálfstæði eru í bráðri hættu. Lærum af reynslunni í þetta sinn. Við vorum ítrekað vöruð við vegna ofþenslu í bankakerfinu okkar en hlustuðum ekki, gerðum lítið úr þeim sem varnaðarorðin sögðu og uppskárum algjört hrun fyrir vikið. Yfir okkur vofir skriðþungi jöklabréfa sem geta hæglega veitt því sem næst gjaldþrota hagkerfi okkar náðarhöggið.

Við krefjumst þess að leyndinni yfir þeim verði aflétt nú þegar sem og bankaleyndinni og leyndinni yfir raforkuverðinu til stóriðjufyrirtækjanna. Þjóðin krefst þess og við erum hér á þessu þingi til að þjóna henni. Því megum við aldrei gleyma. — Takk fyrir.