137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

heimahjúkrun.

[13:52]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um ákvæði í stjórnarsáttmálanum. En í þessum langa sáttmála segir, með leyfi forseta:

„Heilbrigðisráðuneyti og félags- og tryggingamálaráðuneyti verða óbreytt að öðru leyti en því að stefnt er að því að auka samvinnu milli ráðuneytanna um verkefni sem heyra undir bæði ráðuneyti.“ — Og síðan kemur, virðulegi forseti: „Heimahjúkrun og öll þjónusta við aldraða á hjúkrunarheimilum færist til félags- og tryggingamálaráðuneytis.“

Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvað þetta felur í sér. Þegar maður les þetta hljómar það eins og verið sé að setja allt sem snýr að hjúkrunarheimilunum frá heilbrigðisráðuneytinu yfir til félags- og tryggingamálaráðuneytis og sömuleiðis allt sem snýr að heimahjúkrun. Ég vildi bara spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta sé réttur skilningur og sömuleiðis hvenær þetta muni verða.