137. löggjafarþing — 4. fundur,  20. maí 2009.

samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn -- Tónlistarhús.

[13:33]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra að von væri á sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í heimsókn til landsins. Tilgreindi hann sérstaklega að þessi heimsókn væri að þeirra ósk til viðræðna við nýmyndaða ríkisstjórn og aðra aðila. Ætlunin er svo að endurskoða samstarfsáætlunina við sjóðinn í framhaldi af heimsókninni eða eins og hann sagði, með leyfi forseta:

„Í þessari viku kemur sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til viðræðna við nýmyndaða ríkisstjórn og aðra aðila að eigin ósk og ætlunin er að endurskoðun samstarfsáætlunarinnar fari svo fram í framhaldi af þeirri heimsókn.“

Ráðherra taldi síðan sérstaka ástæðu til að hnýta aðeins í formann Sjálfstæðisflokksins um að hann hlyti að fagna þessu sérstaklega.

Ég verð hins vegar að viðurkenna að ýmsar spurningar vöknuðu hjá mér í framhaldi af þessari yfirlýsingu fjármálaráðherra. Svo virðist sem heimsóknin hafi ekki verið að frumkvæði ríkisstjórnarinnar heldur sjóðsins. Því vil ég spyrja formann efnahags- og skattanefndar Alþingis: Hvers vegna er það svo? Hvers vegna óskar sjóðurinn sérstaklega eftir því að koma í heimsókn? Hvers vegna hefur sjóðurinn ekki enn afgreitt aðra útborgun af láni sjóðsins? Hvers vegna hefur einnig dregist að ganga frá samningum um lán frá vinaþjóðum okkar?

Nú eru liðnir sex mánuðir frá því að við samþykktum samningsskilmálana við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og enn er verið að leggja lokahönd á lánaskilmálana samkvæmt orðum hæstv. fjármálaráðherra. Hvers vegna lætur ríkisstjórnin eins og það sé eðlilegasta mál í heimi að sjóðurinn óski eftir því að koma í heimsókn við þessar aðstæður?