137. löggjafarþing — 4. fundur,  20. maí 2009.

mál á dagskrá.

[14:02]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég ætla að leyfa mér, þrátt fyrir orð hæstv. forseta, að gera athugasemd við það hvernig þetta þing fer af stað, hvernig hæstv. nýkjörinn forseti stýrir þessum fundum og þá sérstaklega um hvaða mál við ætlum að ræða á fyrstu dögum þingsins.

Eins og formaður Framsóknarflokksins benti réttilega á varð bylting í samfélaginu eftir síðustu áramót og Vinstri hreyfingin – grænt framboð gerði mjög alvarlegar athugasemdir við það hvernig þáverandi ríkisstjórn setti fram mál sín á fyrstu dögum þess vorþings.

Ég vil upplýsa hæstv. forseta um það að staða heimilanna og fyrirtækjanna er helmingi verri í dag en hún var við upphaf ársins. Að ríkisstjórnin skuli setja fram sem forgangsmál sín frumvörp um vörumerki, erfðabreyttar lífverur, eiturefni og hættuleg efni, meðhöndlun úrgangs og fleira er þjóðinni ekki bjóðandi.

Við hljótum að kalla eftir því að ríkisstjórnin geri grein fyrir því hvað hún ætlar sér í efnahagsmálum, hvað hún ætlar sér að gera í grafalvarlegri stöðu heimila og fyrirtækja (Forseti hringir.) og ég tel fullboðlegt, frú forseti, að stjórnarandstaðan á þingi geri athugasemd við það hvernig ný stjórn þingsins setur upp dagskrána.