137. löggjafarþing — 4. fundur,  20. maí 2009.

áform ríkisstjórnarinnar um fyrningu aflaheimilda.

[14:13]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir það tækifæri sem gefst til að ræða fiskveiðistjórnina og ýmis atriði hennar. Ég þakka hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni fyrir að hefja þessa umræðu á hinu hv. Alþingi.

Í umræðum undanfarið hefur mestur þróttur manna farið í að ræða eina hlið málsins sem er innköllun aflaheimilda og endurráðstöfun þeirra. Að mínu mati er ekki hægt að skoða breytingu á einum hluta kerfisins einangrað. Þess í stað verður að horfa á heildina í ljósi þeirra markmiða sem sjávarútveginum sem grunnatvinnugrein þjóðarinnar eru sett.

Í þessu skyni er rétt í upphafi að renna yfir nokkur atriði í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar á þessu sviði en óhjákvæmilegt er að horfa einnig til stefnumótunar hennar almennt.

Fram kemur í stefnuyfirlýsingunni að ríkisstjórnin vill beita sér fyrir breiðri sátt sem geti orðið grunnur að nýjum efnahagslegum og félagslegum stöðugleika á Íslandi. Í því felst m.a. að ná samstöðu um hagstæð rekstrarskilyrði fyrir fyrirtæki þannig að störf verði varin og aðstæður skapaðar fyrir fjölgun þeirra á ný.

Ljóst er að ofangreint markmið næst ekki nema með samstilltu átaki, takist að ná góðum og jöfnum hagvexti. Að mínu mati er framangreint grunnur þess sem síðan kemur og verður að hafa það í huga þegar fjallað er um einstaka málaflokka.

Við þurfum að hugsa þetta heildstætt. Þetta á ekki síst við um einn af grunnatvinnuvegum okkar, sjávarútveginn, eins þýðingarmikill og hann er fyrir þjóðina. Og áfram segir í stefnuyfirlýsingunni um fiskveiðar og sjávarútveg, með leyfi forseta:

„Markmið sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar er að fiskveiðar umhverfis landið séu hagkvæmar og skapi verðmæti og störf en séu jafnframt sjálfbærar og vistvænar og í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um verndun vistkerfa, lífríkis og hafsbotns. Veiðiheimildir skulu ákvarðast af nýtingarstefnu sem byggist á aflareglu hverju sinni. Íslenskur sjávarútvegur mun gegna lykilhlutverki við þá endurreisn atvinnulífsins sem fram undan er. Það er því afar mikilvægt að skapa greininni bestu rekstrarskilyrði sem völ er á og treysta þannig rekstrargrundvöllinn til langs tíma, en jafnframt verði leitað sátta um stjórn fiskveiða.“

Framangreint er í beinu og góðu samræmi einnig við stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs svo ég mun vinna að þessum markmiðum af heilum hug sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Áfram segir í stefnuyfirlýsingunni með leyfi forseta:

„Með sérstöku ákvæði í stjórnarskrá verði undirstrikað að fiskstofnarnir umhverfis landið séu sameign þjóðarinnar. Úthlutun aflaheimilda er tímabundinn afnotaréttur og myndar ekki undir neinum kringumstæðum eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir heimildunum. Bregðast þarf frekar við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, m.a. með því að gæta atvinnufrelsis og að tryggja að jafnræðis verði gætt við úthlutun afnotaréttarins og aðgengi að hinni sameiginlegu auðlind.“

Ég get nefnt það hér að ég fékk samþykkt á ríkisstjórnarfundi í gær frumvarp til breytinga á lögum um fiskveiðar sem fela m.a. í sér möguleika á frjálsum handfæraveiðum við ströndina. Þótt ekki sé hér um mikið magn að ræða og því séu settar ákveðnar skorður tel ég það engu að síður mikilvæga opnun á kerfinu sem hægt verði að vinna áfram að.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur einnig fram yfirlit um brýnar aðgerðir í sjávarútvegsmálum. Þar vil ég einkum nefna til eftirfarandi: Að stefnt skuli að frekari fullvinnslu afla hérlendis og að óunninn afli verði settur á innlendan markað. Skoðaðir verði möguleikar sem takmarka framsal á aflaheimildum og auka veiðiskyldu og að endurskoða tilfærslur á heimildum milli ára. Grunnslóð verði vernduð. Kannaðir verði möguleikar þess að veiðar afkastamikilla skipa á grunnslóð og inni á fjörðum verði takmarkaðar frá því sem nú er með það að markmiði að treysta grunnslóðina sem veiðislóð fyrir smærri báta og umhverfisvænni veiði.

Í stefnuyfirlýsingunni er sérstakur kafli um endurskoðun laga um fiskveiðar. Þar er kveðið á um að lög um stjórn fiskveiðar verði endurskoðuð í heild með það að markmiði:

Í fyrsta lagi að stuðla að vernd fiskstofna. Í öðru lagi að stuðla að hagkvæmri nýtingu auðlinda sjávar. Í þriðja lagi treysta atvinnu. Í fjórða lagi að efla byggð vítt og breitt um landið. Í fimmta lagi að skapa sátt meðal þjóðarinnar um eignarhald og nýtingu auðlinda sjávar og í sjötta lagi að leggja grunn að innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda á 20 ára tímabili í samræmi við stefnu flokkanna.

Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Endurskoðunin mun verða unnin í samráði við hagsmunaaðila í sjávarútvegi og miðað við að áætlun um innköllun og endurráðstöfun taki gildi í upphafi fiskveiðiárs 1. september 2010.“

Hér er fyrst og fremst verið að tala um að áætlunin muni þá liggja fyrir.

„Skipaður verði starfshópur er vinni að endurskoðuninni og kalli til samráðs hagsmunaaðila og sérfræðinga.“

Jafnframt segir í yfirlýsingunni:

„Ríkisstjórnin telur brýnt að treysta í sessi siðræn viðhorf í umgengni við hafið og auðlindir sjávar í ljósi þess að maðurinn er hluti af náttúrunni og verður að umgangast hana af ábyrgð. Nýta þarf krafta sjómanna og útgerðarmanna í hafrannsóknum til að efla gagnasöfnun og rannsóknarverkefni sem þeir eru þátttakendur í. Kortleggja vel menntun og fræðslu í sjávarútvegi með það að markmiði að auka menntunarstig í greininni.“

Það liggur fyrir að engin sátt er hjá þjóðinni um núverandi fiskveiðistjórnarstefnu. Lítum á fjögur markmið sem fiskveiðistjórnarkerfinu voru m.a. sett. Þau eru: Að skapa atvinnu, stuðla að hagkvæmum veiðum, efla byggðir og efla fiskstofna.

Ef við lítum á það sem við höfum farið yfir nú er áberandi að mörgum finnst aðgangur að auðlindinni ekki hafa verið réttlátur. Má í því sambandi vísa til athugasemda mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Jafnframt þekkjum við öll þann óheyrilega félagslega kostnað sem núverandi fiskveiðistjórnarkerfi hefur skapað. Kvótinn hefur verið seldur burt, eignir fólks í mörgum byggðarlögum hafa fallið stórlega í verði og atvinnuöryggi íbúanna er lítið. Það er ef til vill meginástæðan fyrir því að ekki er sátt um fiskveiðistjórnarkerfið eins og það er í dag en kveðið er á um í stefnuyfirlýsingunni að ráðast eigi í endurskoðun á því.

Að hrinda slíku verkefni af stað er forgangsmál hjá mér sem ráðherra sjávarútvegsmála. Ég get ekki séð að það sé neitt sérstakt að óttast. Það á að taka upp nýtt fiskveiðistjórnarkerfi en flestir eru sammála um að núverandi kerfi þarfnist endurbóta. Til þess leiks verður öllum hagsmunaaðilum boðið og tryggt að þeir komi sjónarmiðum sínum að. Það getur ekki verið ásættanlegt, hvorki fyrir útgerðina né aðra, að búa til lengdar við fiskveiðistjórnarkerfi sem stór hluti þjóðarinnar er ósáttur við.

Mönnum hefur undanfarið verið tíðrætt um svokallaða fyrningarleið og gert hana að aðalatriði þessa máls þannig að hún er aðalumtalsefni í utandagskrárumræðum. Víst er að fyrningarleiðin er nefnd í stefnuyfirlýsingunni og ástæðan fyrir því er að hún er ein leið til þess að auka réttlæti í greininni.

En ég vil minna á álit okkar vinstri grænna þar sem stendur:

„Þótt innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda eins og að ofan greinir sé megintillaga Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er flokkurinn engu að síður reiðubúinn til að skoða aðrar leiðir til réttlátrar skiptingar, geti það orðið til þess að flýta fyrir breytingum í rétta átt og útilokar enga þeirra fyrir fram.“

Frú forseti. Ég skora á alla þá aðila sem tengjast sjávarútveginum, (Forseti hringir.) útgerð og fiskvinnslu að koma hér að borði og ræða þessi mál af einlægni.