137. löggjafarþing — 4. fundur,  20. maí 2009.

áform ríkisstjórnarinnar um fyrningu aflaheimilda.

[14:43]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Frú forseti. Fulltrúi Framsóknarflokksins, hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson, kynnti hér stefnu Framsóknarflokksins um að gera áætlun um að móta stefnu í sjávarútvegsmálum sem er nákvæmlega það sem Framsóknarflokkurinn hefur gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að gera. Fulltrúi Framsóknarflokksins sagði nýverið á fundi á Ísafirði að stofna ætti nefnd til að endurskoða hvort breyta þyrfti kerfinu. Formaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarni Benediktsson, sagði í ræðu sinni á mánudagskvöld að krafan um uppbyggilega umræðu væri gagnkvæm. Orðrétt sagði í ræðu hv. þingmanns, með leyfi forseta:

„Það þýðir að ráðherrar og stjórnarliðar allir verða að hætta að stimpla alla þá sem hafa uppi gagnrýni á fyrningarleiðina sem varðhunda sægreifanna í landinu.“

Það er athyglisvert að formaður Sjálfstæðisflokksins skuli nota þetta hugtak sem mér er ekki kunnugt um að hafi verið í umræðunni um allnokkurn tíma. Sægreifar er niðrandi uppnefni á stétt manna sem hefur í sjálfu sér ekki gert neitt annað en að stunda atvinnustarfsemi sína í takt við þau lög og þær reglur sem gilda. Orðið endurspeglar engu að síður ákveðið sjónarmið almennings í landinu, og greinilega formanns Sjálfstæðisflokksins, til laganna um stjórn fiskveiða. Það endurspeglar þá útbreiddu skoðun að handhafar ókeypis framseljanlegra veiðiheimilda séu forréttindastétt.

Til eru útgerðarmenn sem verðskulda ekki þennan stimpil og til eru þeir sem hafa fjárfest í bönkum, tryggingafélögum, bílaumboðum og þyrlum og súpa nú seyðið af því. Þeir hrópa hæst að nú ætli Reykjavík að færa kvótann frá landsbyggðinni til Reykjavíkur. En hvar hafa þeir sjálfir fjárfest? Til eru þeir útgerðarmenn sem hafa kosið að lifa bara af tekjum sínum af því að veiða fisk og verðskulda ekki stimpilinn sægreifi sem formaður Sjálfstæðisflokksins rifjar nú upp í opinberri umræðu.

Það er rétt að krafan um uppbyggilega umræðu er gagnkvæm. Þeir sem vilja innkalla kvótann og endurúthluta honum eru ekki að taka eignir af neinum, þjóðin á kvótann. Það var kallað þjóðnýting þegar kommúnistar tóku fyrirtæki af eigendum sínum og færðu undir stjórn Sovétríkjanna. Nú kallar formaður Sjálfstæðisflokksins það þjóðnýtingu þegar þjóðin vill endurúthluta því sem hún hefur alltaf átt, afnotarétturinn er ekki eignarréttur, en formaður Sjálfstæðisflokksins lítur á þetta sem eignir útgerðarmanna. Sjálfstæðismenn spyrja: Skapar þessi fyrirhugaða kerfisbreyting meiri verðmæti úr sjó, leiðir hún til betri nýtingar framleiðsluþáttanna, verður umgengni um stofnana betri og kerfið réttlátara? Þeir svara þessum spurningum neitandi. Hefur núverandi kerfi leitt til betri nýtingar? Hefur það skapað meiri verðmæti, betri umgengni og er kerfið réttlátara? Nei.

Fyrningarleiðin er árás á landsbyggðina, segja þeir, en núverandi kvótakerfi hefur skilið ótal byggðir eftir án veiðiheimilda, leitt af sér fólksflótta á höfuðborgarsvæðið, gert eignir þúsunda verðlausar. (Gripið fram í: Rangt.)

Kvótakerfið er besta eða hagkvæmasta leiðin til að nýta auðlindina, segja talsmenn óbreytts ástands. Samt er útgerðin svo skuldug að hún þolir ekki fyrningu. Þetta er rökleysa.

Útgerðin fer á hausinn á sjö árum ef fyrnt verður um 5%, segja talsmennirnir, en gat þolað 30% samdrátt á þarsíðasta ári. Það er rökleysa.

Kvótakerfið er besta leiðin til að vernda fiskstofnana og tryggja uppbyggingu þeirra. Það stenst ekki skoðun.

Óvissan um framtíðina veldur lömun í greininni, en hvað um óvissuna sem fiskvinnslufólk, netagerðarmenn og sjómenn hafa búið við þegar þau spyrja sig: Fara útgerðarmenn með kvótann úr bænum?

Krafa fólksins er krafa um réttlæti. Við fólkið sem gerðum við netin, unnum fiskinn og sóttum sjóinn horfum til hæstv. sjávarútvegsráðherra með von í hjarta um réttlæti. Við fólkið sem eigum kvótann viljum endurúthluta honum, hann er eign þjóðarinnar. Við minnum hæstv. sjávarútvegsráðherra á að sýna útgerðinni samráð, (Forseti hringir.) ekki auðsveipni; virðingu, ekki undirgefni; sjálfstæði en ekki þrælsótta.