137. löggjafarþing — 4. fundur,  20. maí 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög (eignarhald, kynjahlutföll og starfandi stjórnarformenn).

14. mál
[15:07]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. viðskiptaráðherra mælir fyrir frumvarpi sem ber í sér breytingar til batnaðar, en ég vil þó gera veigamikla athugasemd við eitt ákvæði þess. Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að gætt skuli að kynjahlutföllum í stjórnum annarra hlutafélaga. Þessa breytingu tel ég lítilfjörlega og eingöngu gerða til málamynda. Ef litið er til lagaákvæðis um refsingar í lögunum kemur m.a. fram að ef stofnendur og stjórnendur vanrækja skyldur sínar samkvæmt lögunum geti hlutafélagaskrá boðið þeim, að viðlagðri ákveðinni dagsekt eða vikusekt, að inna skylduverk af hendi.

Frú forseti. Mér leikur forvitni á að heyra sjónarmið hæstv. viðskiptaráðherra um það hvernig hann telji að hægt verði að beita refsingum við broti á þessu nýja ákvæði. Hvaða mælistiku mun hlutafélagaskrá notast við (Forseti hringir.) til að meta hvort gætt hafi verið að kynjahlutföllum í stjórn viðkomandi hlutafélags? Því miður tel ég ekki hægt að beita refsingum (Forseti hringir.) vegna þessa nýja ákvæðis og því verður að telja það marklaust.