137. löggjafarþing — 4. fundur,  20. maí 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög (eignarhald, kynjahlutföll og starfandi stjórnarformenn).

14. mál
[15:10]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. viðskiptaráðherra greinargott svar. Ég tel að við þurfum ekki enn eina klausuna þar sem lýst er yfir vilja til að stuðla að jafnrétti einhvern tímann í framtíðinni.

Ég legg til að viðskiptanefnd athugi þetta atriði gaumgæfilega og breyti því þannig að tryggt skuli að a.m.k. 40% stjórnarmanna hlutafélaga séu konur. Þessi skoðun mín grundvallast á tvennu. Í fyrsta lagi væri ákvæðið í samræmi við markmið gildandi jafnréttislaga og í öðru lagi kynni það að leiða til betri rekstrar fyrirtækja á Íslandi. Rannsóknir benda til að konur séu ekki jafnáhættusæknar og karlar og hugi ekki síður að langtímahagsmunum en skammtímahagsmunum, öfugt við karla.

Einnig hafa erlendar rannsóknir á hlutafélögum sem eru skráð á markað sýnt að félög sem stjórnað er af konum eru að jafnaði með betri arðsemi. Niðurstaða mín er sú að atvinnulífið bráðvanti konur til forustu en reynslan kennir okkur að ríkisvaldið gæti þurft að vera ákveðnara í reglusetningu gagnvart atvinnulífinu til að forða okkur frá enn frekara tjóni.