137. löggjafarþing — 4. fundur,  20. maí 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

14. mál
[15:38]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að lengi vel notaði ég orðið hissa eða að ég furðaði mig á því hverjar málefnaáherslur ríkisstjórnarinnar væru, en ég verð að segja að ég er eiginlega komin yfir það og er farin að lýsa yfir verulegum vonbrigðum. Ég hef þegar gert athugasemdir við forseta við það hvaða mál hafa verið sett á dagskrá og ég ítreka að ég er mjög ósátt við að við stöndum á hv. Alþingi og ræðum þetta. Í staðinn fyrir að ræða um starfandi stjórnarformenn og kynjahlutföll í stjórnum og æðstu stjórnunarstöðum, þó að þetta séu mikilsverð mál, hefði ég miklu frekar viljað sjá umræðu um það hvort við ættum ekki að fara að vinna í því að afnema verðtrygginguna, hvort við ættum ekki að einfalda starfsumhverfi fyrirtækja frekar en að flækja það og hvort við gætum ekki skoðað það að setja hreint og klárt bann við gengistryggingu lána. Það virðist ekki hafa verið nógu skýrt í lögum um vexti og verðtryggingu hvort gengistryggð lán séu lögleg eða ekki. Fjöldi einstaklinga hyggur á málssókn til að fá það á hreint hvort það hafi verið leyfilegt að lána peninga í erlendri mynt. Hvað með að lækka dráttarvexti? Það er áhugavert mál og síðast en náttúrlega ekki síst leiðrétting skulda heimila og fyrirtækja. Ef fyrrverandi viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, og núverandi hv. þingflokksformaður Samfylkingarinnar, hefði ekki verið svo önnum kafinn að klappa fyrir útrásarvíkingunum hefði hann væntanlega haft tíma til að leggja fram þetta einfalda mál sem við erum að ræða hér og nú.

Ég nefndi áðan í andsvörum við ráðherra að ég hef mjög miklar áhyggjur af því að við fáum sífellt fréttir af því að alltaf sé verið að seinka dagsetningum á því hvenær ljúka eigi við að stofna bankana. Eins og kom fram í svörum hæstv. ráðherra gerir þetta það að verkum að staða nýju bankanna er mjög óljós, hvort þeir eru raunverulega í eigu ríkisins eða ekki og hvort þau lög sem eiga að gilda um opinber hlutafélög gilda um þá eða ekki. Þegar þetta mál var lagt fyrst fram á þinginu gerði ráðherrann sjálfur sér ekki fyllilega grein fyrir því hver staða bankanna væri gagnvart lagaumhverfinu.

Ríkisstjórnin sem situr núna, og sú sem var áður minnihlutastjórn, talaði um að hún ætlaði strax að láta verkin tala. Maður hefur vissulega heyrt alveg ægilega mikið blaður og mal, en bara um ekki neitt. Það sem ég hef mestar áhyggjur af er það að ríkisstjórnin virðist algjörlega vera búin að loka sig af í einhvers konar fílabeinsturni og hún heyrir hreinlega ekki neyðarópin í íslenskum fjölskyldum og frá fyrirtækjunum. Þetta er það sem hæstv. viðskiptaráðherra kemur með inn á borð þingsins.

Í þessu frumvarpi erum við að fara að leggja til þrenns konar breytingar á lögum um hlutafélög, þar á meðal á einum lögum sem taka til einkahlutafélaga. Það er verið að skylda stjórnir hlutafélaga til að geyma á hverjum tíma réttar upplýsingar. Það er talað um kynjahlutföll í stjórnum og við ráðningu framkvæmdastjóra og það kemur inn ákvæði um starfandi stjórnarformenn, að formaður félagsstjórnar skuli ekki taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem teljast eðlilegur hluti starfa hans sem stjórnarformanns, að undanskildum einstökum verkefnum sem félagsstjórnin felur honum að vinna fyrir sig. Við getum hlakkað til að við erum að fara að ræða önnur mjög mikilvæg mál að mati hæstv. viðskiptaráðherra, breytingu á lögum um samruna og skiptingu félaga og breytingar á ýmsum lögum um óréttmæta viðskiptahætti. Ég hugsaði: Vúbbí, þarna er kannski eitthvað áhugavert fyrir okkur, við förum að taka á óréttmætum viðskiptaháttum. Þegar ég las hins vegar lagafrumvarpið kom í ljós að þetta er ákvæði um reglugerð, þetta er ein stutt setning sem tengist að vísu neytendavernd en það var ekki mikið kjöt á beinunum. Svo er að sjálfsögðu hið mjög mikilvæga lagafrumvarp um vörumerki.

Við höfum aðeins rætt, fyrri ræðumenn og hæstv. ráðherra, um kynjahlutföllin. Hérna er sagt í 2. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Við 1. mgr. 63. gr. laganna bætast þrír nýir málsliðir sem orðast svo: Einnig skal gætt að kynjahlutföllum í stjórnum annarra hlutafélaga. Í tilkynningum um stjórnir til hlutafélagaskrár skal sundurliða upplýsingar um hlutföll kynjanna í stjórn. Í hlutafélögum, þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli, skal jafnframt sundurliða upplýsingar um hlutföll kynjanna meðal starfsmanna og stjórnenda félagsins.“

Einnig segir í 3. gr.:

„Við 1. mgr. 65. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Gætt skal að kynjahlutföllum við ráðningu framkvæmdastjóra og skulu hlutafélagaskrá gefnar upplýsingar í tilkynningum til skrárinnar um hlutföll kynjanna meðal framkvæmdastjóra.“

Síðan bætast við sams konar málsgreinar um einkahlutafélög.

Eins og við flest þekkjum bera íslensk nöfn yfirleitt með sér hvers kyns viðkomandi er. Ítrekað hefur komið fram að hið lögbundna vald segir til um hvort nöfn séu í lagi eða ekki og að auki hafa oft komið athugasemdir frá því um að það telur að ákveðin nöfn séu í lagi ef það eru stúlkur sem eiga að bera þau en ekki ef það eru drengir. Hv. Alþingi ætlar ekki að treysta starfsmönnum hlutafélagaskrár til að greina þarna á milli. Eins og við öll þekkjum búum við við þá sérstöku hefð að við tökum upp föðurnafn okkar, eða móðurnafn, og bætum -dóttir eða -son fyrir aftan. Það tengist kyni einstaklingsins sem ber nafnið. Það ætti að vera almennt tiltölulega auðvelt fyrir hlutafélagaskrá að greina þessar upplýsingar. Það gæti verið hluti af nýrri atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar að fjölga störfum hjá hinu opinbera svo hlutafélagaskrá gæti sinnt þessu og tekið þá þennan kostnað á sig í staðinn fyrir að leggja hann á fyrirtækin eða aumingja endurskoðendaskrifstofurnar sem þurfa að bæta þessari klausu í ársreikningana hjá sér.

Það komu m.a. athugasemdir við þetta og það kom sérstaklega fram í nefndarálitinu hjá annaðhvort 1. eða 2. minni hluta. Sá minni hluti benti á að ýmsir sem sendu inn umsagnir töluðu um að gerð væri krafa um of víðfeðma upplýsingagjöf, og aukið skrifræði eins og ég benti á. Ég er þeirrar skoðunar að ef það á að vera einhver alvara hjá löggjafanum að tryggja hlutföll kynjanna í stjórnum og hjá starfsmönnum fyrirtækja þurfum við að vera tilbúin til að ganga lengra. Annars getum við bara sleppt því að setja þetta inn og auka kostnað og vesen hjá fyrirtækjunum. Annaðhvort gerum við þetta almennilega eða við sleppum því.

Það kom fram í nefndaráliti minni hluta viðskiptanefndar á síðasta löggjafarþingi, með leyfi forseta:

„Um það var rætt í nefndinni hvort ákvæði frumvarpsins þyrfti ekki að vera afdráttarlausara en svo að mæla fyrir um að gætt skuli að kynjahlutföllum. Töldu sumir gesta nefndarinnar að ganga ætti lengra, t.d. í þá veru að mæla fyrir um 40/60 kynjakvóta og var m.a. vísað til norskra laga um það efni en í þeim er tilgreindur lágmarksfjöldi af hvoru kyni í stjórnum hlutafélaga í hlutfalli við fjölda stjórnarmanna. Við setningu norsku laganna var félögum veittur rúmur tími til aðlögunar.“

Ég get upplýst það hér, og við framsóknarmenn, að við höfum búið við 40/60 kynjakvóta í töluverðan tíma. Ég kom m.a. að því að það var sett inn í lög Framsóknarflokksins að vera með 40/60 regluna. Ég veit að þetta var eitt af því sem hæstv. forseti hafði forgöngu um innan okkar flokks. Þegar við völdum fólk á lista fyrir alþingiskosningarnar síðast má segja að fyrst þá hafi þessu ákvæði verið beitt að einhverju ráði við val á lista. Eiginlega vildi svo óskemmtilega til að mati sumra að þessu var beitt á konur, konur urðu í efstu 5–6 sætunum í prófkjöri í Suðvesturkjördæmi hjá okkur og það voru nokkrar konur þar sem buðu sig fram sem höfðu barist hvað harðast fyrir því að setja inn þessa reglu. Þessu var beitt og fólk sætti sig við það. Þetta er það sem við viljum sjá, raunverulegt jafnrétti og þá þarf það að gilda í báðar áttir, hvort sem það eru konur eða karlar.

Ég hef líka talað um að þó að ekki sé um umtalsverða fjármuni að ræða eru samt lagðar auknar álögur á íslensk félög. Í því ástandi sem við erum núna ætti ríkisstjórnin að marka þá stefnu að reyna að draga úr álögum á fyrirtæki. Fyrirtæki eiga í dag í miklum erfiðleikum og eru á fullu að borga ofurháa vexti og ofurháa dráttarvexti, a.m.k. af þeim lánum sem þau fá ef þau eru svo heppin að fá einhverja fjármögnun.

Ríkisstjórn Svía hefur sett sér þau markmið að draga úr kostnaði fyrirtækja um 25% á þessu kjörtímabili. Svíar hafa horft til þess hvernig hægt sé að einfalda hjá sér t.d. hlutafélagalögin og bókhaldslöggjöfina og mér skilst að þeir hafi jafnvel líka skoðað hvernig hægt væri að einfalda skattalöggjöfina. Þetta er náttúrlega allt kostnaður fyrir fyrirtækin.

Ég starfaði hjá tölvufyrirtæki sem seldi bókhaldsforrit fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Okkur þótti alltaf mjög áhugavert að sjá hvaða löggjöf kom frá þinginu í lok hvers árs, hvort við gætum ekki örugglega sent nýja uppfærslu á fyrirtækin okkar og þá rukkað þau náttúrlega fyrir uppfærsluna. Þetta er nokkuð sem ég tel skipta mjög miklu máli, þegar verið er að koma með ný mál inn í þingið, hvort um sé að ræða aukið skrifræði eða auknar álögur að einhverju leyti á fyrirtækin. Ég hef líka verið mjög ósátt við þá umsögn sem fylgir frumvörpunum þar sem bara er tekið á því hvort um sé að ræða aukin útgjöld fyrir ríkissjóð en ekkert rætt um hvort um sé að ræða aukið álag fyrir þá sem þurfa að gegna þessum lögum. Ég veit að þetta er eitt af því sem sveitarfélög hafa verið mjög ósátt við, að endalaust komi ný lög frá þinginu sem auki kostnað. Það kemur fram í umsögninni að ekki er um aukin útgjöld fyrir ríkissjóð að ræða en geta orðið mjög mikil útgjöld fyrir sveitarfélögin.

Ég hef engar athugasemdir við það að bætt verði inn þessu ákvæði um starfandi stjórnarformenn, ég get algjörlega tekið undir að af fenginni reynslu vitum við að það er óæskilegt að stjórnarformenn séu í reynd hluti af framkvæmdastjórn eða gegni jafnvel nánast framkvæmdastjórastarfi félaganna, enda á hlutverk þeirra að vera að stýra eftirliti með félaginu og tryggja að það uppfylli þau lagaskilyrði sem við setjum. Þetta ákvæði byggir á grein í dönsku lögunum um hlutafélög en það á aðeins við um félög sem eru skráð á markað. Félögum sem eru skráð á markað á Íslandi hefur fækkað ansi mikið á undanförnum mánuðum og missirum. Við umfjöllun málsins í nefndinni á fyrra löggjafarþingi var bent á að danska ákvæðið er umdeilt þannig að einnig þætti óljóst hvað teldist eðlilegur hluti starfa stjórnarformanns. Þá er það spurning um að reyna að skýra það aðeins betur í starfi nefndarinnar.

Þetta eru mínar helstu athugasemdir. Ég styð það gjarnan ef það er hægt að gera strangari kröfur um kynjakvóta, en ég hef fært rök fyrir því að ef við ætlum að leggja auknar álögur á (Forseti hringir.) félög þurfum við að gera það af einhverri alvöru og það þarf þá að vera einhver raunveruleg hugsun á bak við, að við teljum að við séum að bæta samfélagið (Forseti hringir.) en ekki að gera þetta bara „af því bara“.