137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

[15:23]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra varðandi samskiptin við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og hvers vegna það hafi tafist jafnmikið og raun ber vitni að fá afgreiddan annan hluta af láni sjóðsins. Hér er ekki um að ræða einangrað mál sem snertir eingöngu þetta lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins heldur er hér um að ræða þátt í því efnahagssamstarfi sem við eigum við sjóðinn og mun auðvitað hafa heilmikil áhrif á ýmsa aðra þætti. Þetta er spurning um trúverðugleika okkar út á við. Þetta er spurning um þann þrýsting sem greinilega hefur skapast á íslensku krónuna og við höfum fylgst með síðustu dægrin. Þetta hlýtur líka að spila inn í það sem hér var verið að ræða um, ákvarðanir um stýrivexti sem verða teknar eftir hálfan mánuð eða svo.

Þessi mál hafa alloft verið tekið upp í ræðustóli Alþingis og það hefur verið að gefnu tilefni vegna þess að svörin sem hafa borist eru þess eðlis að þau kalla einfaldlega á að þessu máli sé fylgt eftir. Svör hæstv. ríkisstjórnar hafa verið mjög losaraleg og óljós. Fyrir rúmum tveimur mánuðum sagði t.d. hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon þegar hann ræddi um þessi mál, með leyfi forseta:

„Það eru tæknileg, og má segja að hluta til efnisleg atriði af þessu tagi sem ætlunin er að skoða betur og ganga endanlega frá orðalagi á á næstu dögum, viku eða 10 dögum, og þá verður skýrslan endanlega tilbúin …“

Það eru sem sagt rúmir tveir mánuðir síðan þetta voru tæknileg mál sem átti að ganga frá á allra næstu dögum. Hv. þm. Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar, var spurður um þessi mál líka í síðustu viku og þá vísaði hann enn til þessa hugtaks að „hin tæknilegu úrlausnarefni“ væru eitthvað að vefjast fyrir mönnum til að komast til botns í þessum efnum.

Í ljósi þessara yfirlýsinga vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra í fyrsta lagi: Hvaða atriði eru það nákvæmlega sem upp á vantar til að hægt sé að afgreiða þetta mál? Getur hæstv. forsætisráðherra útskýrt fyrir okkur, listað upp þessi atriði þannig að okkur sé ljóst (Forseti hringir.) hvað hér er um að ræða? Og í öðru lagi: Hefur verið gripið til allra þeirra aðgerða sem nauðsynlegar eru til að koma til móts við það sem sjóðurinn telur að vanti hér upp á?