137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

[15:27]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þá liggur það fyrir hver þessi tæknilegu úrlausnarnefni voru. Það voru smáatriði eins og það að ganga til kosninga. Það voru minni háttar framkvæmdaratriði eins og það að mynda nýja ríkisstjórn. Það voru svona minni háttar mál eins og það að endurskipuleggja heilt bankakerfi. Það var atriði eins og það að ganga frá samningunum um Icesave og lánasamningum við önnur ríki, sem hæstv. fjármálaráðherra talaði um 16. mars að væru tæknileg úrlausnarefni. Nú liggur það fyrir að þetta það sem þar hefur búið að baki.

Því vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra af því að hæstv. ráðherra vísaði til þess að farið yrði yfir þessi mál í byrjun júlímánaðar, þ.e. eftir einn og hálfan mánuð eða þar um bil, af hálfu stjórnar sjóðsins þar sem það yrði væntanlega tékkað af hvort búið væri að kjósa og hvort búið væri að mynda ríkisstjórn og ganga frá samningunum um Icesave og það allt saman: Telur hæstv. forsætisráðherra að á þeim fundi verði gengið frá lánaafgreiðslunni á öðrum hluta lánsins? Og telur hæstv. forsætisráðherra, með skírskotun til þess sem hún sagði áðan, (Forseti hringir.) að fyrir þann fund verði búið að afgreiða með fullnægjandi hætti þau úrlausnarefni og ágreiningsefni sem eru greinilega uppi milli ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins?