137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

efnahagshorfur, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er að mörgu leyti viðeigandi að við minnumst hér 80 ára afmælis Sjálfstæðisflokksins með því að líta yfir rústirnar í íslensku efnahagslífi. Þó að endurreisnin gangi hægt gengur hún í rétta átt og það er furðulegt að formaður Sjálfstæðisflokksins skuli reyna að slökkva von hjá fólki og grafa undan trúverðugleika samstarfs okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það liggur einfaldlega fyrir af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í fréttatilkynningum frá sendinefnd sjóðsins frá því í marsmánuði að hér gengur allt í grófum dráttum eftir þeirri áætlun sem sett var. Í yfirlýsingum fulltrúans hér á landi í síðasta mánuði kom fram að hér gengi vel að fylgja eftir áætlunum og þess mætti vænta að hjól efnahagslífsins færu að snúast áður en allt of langt um liði. Yfirlýsingar og hræðsluáróður formanns Sjálfstæðisflokksins á þessum fundi eru einfaldlega í mótsögn við fyrri yfirlýsingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. (Gripið fram í: … borga fyrir afborgunina?)

Ég gagnrýni það vegna þess að hv. þm. Bjarni Benediktsson og aðrir sjálfstæðismenn átta sig þó á mikilvægi samstarfs okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem ýmsir aðrir stjórnmálaflokkar á Alþingi virðast ekki gera. Sjálfstæðisflokkurinn man eins og ég þann tíma í vetur þegar engin þjóð í heiminum, að undanskildum Færeyingum, var tilbúin til að fjármagna hugmyndir okkar og rekstur öðruvísi en með aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Við eigum þess vegna að vita að það samstarf er gríðarlega mikilvægt þó að við förum auðvitað áfram með sjálfsforræði í efnahagslegu tilliti. Sjóðurinn gerir hins vegar auðvitað þá kröfu að hér séu trúverðugar áætlanir í efnahagsmálum og að þeim sé framfylgt. Því miður er enn ýmislegt í efnahagsmálum okkar háð óvissu. Ýmsar stærðir liggja enn ekki fyrir og þarf að vinna úr.

Þeir sem ráðast að sjóðnum og gera honum upp ýmiss konar annarlegar ætlanir og það að ganga beinlínis gegn hagsmunum Íslendinga ættu að hafa í huga að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er ekki staddur á Íslandi að eigin ósk. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vildi fyrst og fremst vera laus við það að þurfa að sinna þeim erfiðu verkefnum sem hér eru og geta einbeitt sér betur að þeim fjölmörgu öðrum erfiðu verkefnum sem hann glímir við á alþjóðavettvangi. Þannig er það hins vegar ekki, ástandið hér er þannig að á því þarf að taka og sjóðurinn vinnur að því að leysa úr þeim gríðarlegu erfiðleikum sem við stöndum frammi fyrir, samkvæmt opinberri áætlun sem menn geta einfaldlega lesið sér til um á vefnum. Að þeirri áætlun vinnur ríkisstjórnin líka og það starf hefur að mörgu leyti gengið mjög vel. Þar er m.a. brýnt að við endurreisum trúverðugleika okkar á alþjóðavettvangi. Hluti af því er þetta farsæla samstarf en líka það að við náum að ljúka viðræðum um Icesave-málin vegna þess að auðvitað er trúverðugleiki okkar á alþjóðavettvangi þar undir um hvort okkur tekst að leiða þau erfiðu deiluefni farsællega til lykta fyrir íslenskt þjóðarbú og fyrir samstarf okkar við aðrar þjóðir.

Hér mun líka mikið álitamál koma fyrir Alþingi, hvort við eigum að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Umfjöllun okkar á þessu vorþingi og afgreiðsla á því máli getur haft veruleg áhrif á trúverðugleika okkar á alþjóðavettvangi. Ef meiri hluti næst í þinginu getum við sent heiminum þau skilaboð að hér sé þjóð sem hefur vissulega orðið fyrir miklu áfalli en tekið þá ákvörðun að kanna til hlítar hvaða kostir henni bjóðast í alþjóðlegri samvinnu og um framtíð í efnahagslegu tilliti og hyggist leggja niðurstöður þess í dóm þjóðarinnar. Ég held að það væri eitt af mikilvægustu skrefunum sem við gætum stigið á þessu vorþingi.

Hitt blasir líka við okkur, að hér þarf að taka á ríkisfjármálum. Það sýnir sig að rétt eins og við vanmetum iðulega tekjurnar þegar hagvöxtur er mikill virðist okkur líka hætta til þess að ofmeta þær þegar samdráttur verður. Hér þarf að grípa til verulegs niðurskurðar í ríkisfjármálum. Það er fagnaðarefni að heyra hversu viljug stjórnarandstaðan er til að ganga í það verkefni með ríkisstjórninni. Ég vísa því á bug að það ætti að vera (Forseti hringir.) búið að ráðast í þær aðgerðir því að það verðum við að gera í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins í (Forseti hringir.) þeirri vinnu að efnahagslegum stöðugleika sem fram fer á þeirra vegum (Forseti hringir.) og í samráði þeirra við stjórnvöld og ljúka á núna í júníbyrjun.