137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

efnahagshorfur, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:51]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra hefur nú flutt okkur skýrslu um efnahagsmál og enn á ný er ekkert að frétta. Það er hreinlega ekkert að gerast. Aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar er slíkt að samkvæmt fréttum í morgun hótaði formaður nefndar um endurreisn fjármálakerfisins, Svíinn Mats Josefsson, að segja af sér vegna hægagangs stjórnvalda. Hann tók þannig undir málflutning stjórnarandstöðunnar.

Stefnuleysið í málefnum bankanna hefur m.a. kristallast í ótrúlegu kennitöluflakki fyrirtækja á samkeppnismarkaði, niðurfellingu milljarðaskulda til vildarvina og annarra tilviljanakenndra aðgerða sem ekki hafa orðið til þess að auka traust almennings á stjórnvöldum og fjármálakerfinu. Traust sem verður að ríkja eigi að takast að endurreisa fjármálakerfið á Íslandi.

Tugum ef ekki hundruðum milljarða hefur verið varið til að verja innstæður á innlánsreikningum og í peningamarkaðssjóðum á meðan almenningur hefur horft upp á heimili sín fuðra upp á verðtryggingarbáli og í gengishruni. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hefur þannig slegið skjaldborg um fjármagnseigendur í landinu á meðan heimilin fá ekkert annað en lengra reipi til að hengja sig í.

Ráðherrar og þingmenn ríkisstjórnarinnar hafa gengið svo langt í vörnum fyrir þetta aðgerðaleysi sitt að benda á að ríkisstjórnin sé bara rétt tveggja vikna gömul og það taki tíma að koma á koppinn öllum þeim mikilvægu málum sem hún hefur áform um. Það er eins og þessir þingmenn gleymi því að ríkisstjórnin hefur nú starfað í nærri fjóra mánuði og stór hluti hennar hefur verið við stjórnvölinn í á þriðja ár. Það er ekki eins og þetta fólk hafi verið að setjast í ráðherrastólana í fyrsta sinn í síðustu viku.

Hæstv. forsætisráðherra hefur setið í ríkisstjórn í á þriðja ár, sömuleiðis samgönguráðherra og ekki má gleyma utanríkisráðherra. En stundum er eins og við séum að fást við einhverja umskiptinga í ráðherrastólunum. Minna má á orð Ögmundar Jónassonar, núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, sem sagði á heimasíðu sinni í janúar síðastliðnum þegar þáverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins taldi óráðlegt að veita almenningi aðgang að upplýsingum endurskoðunarfyrirtækja um málefni bankanna, með leyfi forseta:

„Bíðum við. Almenningur á að borga en fær ekki að vita neitt um svindlið og svínaríið. Var ekki verið að tala um gagnsæi? Auðvitað á að birta þetta allt saman strax og það á netinu. Eru yfirvöld að egna þjóðina til uppreisnar?“

Þessar upplýsingar liggja enn í dulkóðuðu herbergi í ráðuneyti samflokksmanns hæstv. heilbrigðisráðherra og munu væntanlega ekki líta dagsins ljós fyrr en seint og síðan meir, ef nokkurn tímann. Gagnsæið lifði því ekki af umskiptin úr stjórnarandstöðu í ráðherrastól. Og þegar almenningur tekur sig svo aftur til og mótmælir aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar og býðst til að endurvekja búsáhaldabyltinguna uppsker hann ekkert annað en formælingar og fyrirlitningu frá flokksblaði VG á netinu.

Á sama hátt hefur hæstv. forsætisráðherra áratugum saman gengist upp í ímynd sinni sem málsvari almennings gegn auðvaldinu. Því datt manni ekki annað í hug en að í stefnuræðu hennar í síðustu viku hefði læðst meinleg villa er hún sagði, með leyfi forseta: „Við megum ekki láta hagsmuni fárra víkja fyrir hagsmunum margra.“ Kannski var þetta bara það sem kalla má freudískt mismæli. Að minnsta kosti benda aðgerðir ríkisstjórnarinnar ekki til annars. Nær allar hennar aðgerðir miða að því að bjarga fjármagnseigendum og ekki er horft í kostnaðinn þegar þeir eru annars vegar. Þegar kemur að almenningi fá fjölskyldurnar enga aðstoð fyrr en þær eru komnar í þrot og þegar svo er komið bíða svipugöng félagslega kerfisins, tilsjónarmanna, skiptastjóra og nafnabirtingar í Lögbirtingablaðinu.

Nú eru liðnir níu mánuðir frá hruninu mikla og fjórir mánuðir frá því að ríkisstjórn Samfylkingar og VG tók við völdum og hvað hefur ríkisstjórnin gert síðan þá? Harla lítið. Hún stærir sig af miklum fjölda mála sem hún býst til að leggja fram á sumarþingi. Væntanlega brýn mál sem snerta hagsmuni heimilanna í landinu. Þetta eru brýn mál á borð við frumvarp vegna flutnings verkefna á milli ráðuneyta, frumvarp um persónukjör, frumvarp um aðild starfsmanna við samruna hlutafélaga yfir landamæri, frumvarp um heilbrigðisstéttir, frumvarp um hvali, frumvarp um erfðabreyttar lífverur og svo síðast en ekki síst þarf að fjalla um meðhöndlun úrgangs og úrvinnslugjald. Og svo að sjálfsögðu Evrópusambandsaðild, töfralausn Samfylkingarinnar á efnahagsvanda þjóðarinnar.

Það má vel vera að aðildarumsókn að Evrópusambandinu verði hluti þeirra aðgerða sem grípa verður til svo við náum að rétta úr kútnum en sú þráhyggja sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru haldnir í því máli er beinlínis hættuleg þjóðinni. Að sumarþingið eigi að snúast um blauta drauma Samfylkingarinnar um skilyrðislausa innlimun í Evrópusambandið í stað almennra aðgerða til lausna á vanda heimilanna í landinu er einhver sú stærsta smjörklípa sem þjóðin hefur augum (Forseti hringir.) litið og þjóðin mun sjá í gegnum hana.