137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

efnahagshorfur, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:56]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Bhr):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra flutti okkur efnahagsskýrslu, nýjustu fréttir frá ríkisstjórninni og ástandið er mjög dapurlegt að mjög mörgu leyti. Klifað hefur verið á því af hálfu stjórnarinnar að við stöndum frammi fyrir stórkostlegum erfiðleikum, að vandamálin séu mörg og stórkostleg. Þegar kemur að lausnunum dregur úr stórkostlegheitunum. Þær lausnir sem hefur verið minnst á þykja mér fulllitlar og ganga of stutt miðað við hina stórkostlegu erfiðleika sem allir sjá að eru fram undan hjá okkur.

Hæstv. forsætisráðherra sagði eitthvað á þá leið að fylgst verði grannt með þeim hópum sem verst standa. Gott og vel. Ég sperrti eyrun þegar ég heyrði þessa setningu en lagði svo kollhúfur þegar lengra kom í ræðunni og viðbótin kom, að það væri að vísu ekki hægt að hjálpa þeim sem verst standa heldur þurfi að líta á heildarmyndina. Þetta eru fræði sem ég á mjög erfitt með að skilja. Þetta eru fræðin um manninn sem situr með hausinn í ísboxi og lappirnar í heitum hver og hefur að meðaltali nokkuð gott hitastig.

Það er sagt að maður eigi ekki að gagnrýna án þess að koma með svör. Svör liggja á borðinu, svör við því hvernig hægt er með stórmannlegum hætti að koma til móts við þá sem verst standa. Það eru þeir sem verst standa sem við þurfum að hafa áhyggjurnar af því að hinir pluma sig sennilega lifandi í gegnum kreppuna.

Samkvæmt starfshópi frá Seðlabanka Íslands birtist sú niðurstaða í marsmánuði síðastliðnum að 42% íslenskra heimila væru með neikvæða eða afar þrönga eiginfjárstöðu um síðustu áramót. Þetta þykja mér vera umtalsverð vandamál ef 42% íslenskra heimila eru í mjög erfiðum málum fjárhagslega. Mér finnst vandamál af þessari stærðargráðu krefjast meiri aðgerða en svonefndrar greiðslujöfnunar sem á mannamáli eru kölluð teygjulán. Greiðsluaðlögunar sem á mannamáli heitir nauðasamningur eða bómullargjaldþrot. Við þurfum á því að halda að hér séu leiðréttingar umfram það sem úthrópað er með stórkostlegum lofsyrðum frá ríkisstjórninni, að vaxtabætur geti orðið 25 þús. kall á familíu. Þær aðgerðir sem boðaðar eru eru að mínu viti svo hlálegar við svo sorglegar aðstæður að þær mundu kallast grátbroslegar.

Ég spyr á móti: Hvað kostar að gera ekki neitt? Skotið hefur verið á að það að færa vísitöluna aftur til 1. janúar 2008 og færa gjaldeyrislán yfir í krónur miðað við svipaðan tíma séu aðgerðir sem kosti kannski um 250 milljarða. Ég spyr á móti: Hvað kostar ung fjölskylda sem flyst úr landi? Hvað þurfum við margar ungar fjölskyldur? Hvað þurfum við að sjá margar ungar fjölskyldur flytjast úr landi til að telja að við séum komin með ásættanlega upphæð upp í þessa 250 milljarða?

Ég bið ríkisstjórnina áður en hún kynnir mér næstu efnahagslausnir sínar að hugsa til þess að ungur þingmaður úti í sal, þótt gamall sé að árum, situr og vonast til að heyra lausnir sem eru jafnstórkostlegar og vandinn.