137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

breytingar á ýmsum lögum um óréttmæta viðskiptahætti.

13. mál
[17:33]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef mikinn áhuga á að fá að heyra frekar frá hæstv. viðskiptaráðherra af því að þarna er verið að tala um tilskipun frá Evrópusambandinu um óréttmæta viðskiptahætti. Það hefur komið fram hjá talsmanni neytenda að hann telur að þau gengistryggðu lán sem boðið hefur verið upp á á íslenskum fjármálamarkaði hafi hugsanlega verið ólögleg og hef ég velt því fyrir mér hvort þessi löggjöf gæti þá tekið á þessu. Ég hef líka velt því fyrir mér hvort þessi löggjöf, og þá hugsanlega mikilvægu reglugerðarbreytingarnar sem verið er að tala um, gæti líka tekið á þeim hugmyndum sem hæstv. ráðherra ræddi sjálfur í fréttum RÚV. Hann ræddi um það að hann ætlaði að læsa inni gríðarlegt gengistap lántakenda með því að færa lán úr íslenskum krónum yfir í erlenda mynt og leysa þar með rekstrarvanda ríkisbankanna — hvort við getum þá kannski vonast til þess að Evrópusambandið bjargi okkur frá þeim óréttmætu viðskiptaháttum sem verið er að boða frá viðskiptaráðuneytinu.