137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

breytingar á ýmsum lögum um óréttmæta viðskiptahætti.

13. mál
[17:35]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrirspurnina. Það er rétt að geta þess að ef réttarágreiningur ríkir um lögmæti erlendra lána sem íslenskir bankar hafa veitt er rétt að úr því verði skorið fyrir dómstólum. Ég get sjálfur ekki skorið úr um það.

Að öðru leyti er það vissulega rétt að fram hefur komið að ákveðinn vandi er hjá íslenskum bönkum vegna þess að þeir eru með meiri erlendar eignir en erlendar kröfur og á móti meiri kröfur í innlendum myntum sem bera háa vexti. Það er eitt af þeim vandamálum sem þarf að leysa áður en bankarnir verða að fullu starfhæfir og hægt er að skilja að fullu milli gömlu og nýju bankanna. Ég hef hins vegar aldrei látið í ljós að það eigi að gera með því að læsa lántakendur inni á óhagstæðu gengi eða með öðrum hætti brjóta á hagsmunum þeirra. Ef lánum verður breytt úr erlendri mynt í krónur þá verður það að vera gert með samningum sem báðir aðilar sjá sér hag í. Annað væri augljóst brot á eignarréttarákvæðum stjórnarskrár.