137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

hlutafélög með gegnsætt eignarhald og bann við lánveitingum og krosseignarhaldi.

5. mál
[18:20]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að fjárveitingavaldið er sannarlega hjá þinginu, en boðvaldið yfir starfsmönnum ráðuneyta er þar ekki. Til að afla þeirrar sérfræðiþekkingar sem hér þyrfti tel ég að annað tveggja þyrfti að koma til, beinar fjárveitingar, vissulega frá Alþingi, til að efla nefndasvið eða sérstakur samningur milli Alþingis og viðkomandi ráðuneyta um samnýtingu starfskrafta. Það væri kannski affarasælast vegna þess að ég er ekki viss um að við eigum svo marga sérfræðinga á hverju sviði. Það væri áreiðanlega hagkvæmara að samnýta þá.