137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

staða minni hluthafa.

7. mál
[18:46]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Málefni hinna svokölluðu minni hluthafa hefur oft borið á góma í ræðustól Alþingis að vonum. Sú þróun hefur orðið mörg síðustu ár og áratugi að almenningur hefur tekið vaxandi þátt í atvinnurekstri, m.a. með þeim hætti að fólk hefur fjárfest í fyrirtækjum, ekki síst meðan hlutabréfamarkaður var sem virkastur. Fólk lagði umtalsverðan hluta af sparnaði sínum í hlutabréf, oft með góðri ávöxtun. Auðvitað var það æskilegt allra hluta vegna, bæði vegna þess að fólk hafði þar með tækifæri til að ávaxta sparifé sitt með fjölbreyttari hætti og fékk oft og tíðum góða ávöxtun af fé sínu og auðvitað ekki síður vegna þess að með þessum hætti gat almenningur tekið virkari þátt í atvinnurekstrinum, jafnvel haft einhver áhrif á stefnu atvinnulífsins, og enn fremur stutt við uppbyggingu atvinnulífsins með því að leggja fram áhættufé í formi hlutafjár til að styðja við uppbyggingu atvinnulífsins í landinu.

Við sjáum mjög mörg góð dæmi um þetta. Þegar best lét má segja að á flestum heimilum hafi verið til hlutabréf í einhverri mynd sem auðvitað endurspeglaði áhuga fólks á því að taka þátt í atvinnurekstri. Jafnvel þótt það kysi ekki að vera í forsvari fyrir atvinnureksturinn vildi það með þessum hætti að taka þátt í honum þó að það hefði ekki bein áhrif á rekstrarlega framvindu fyrirtækja frá degi til dags.

Það eru hins vegar til skuggahliðar á þessu. Hlutafé er í eðli sínu áhættufjármagn og stundum gengur vel og stundum illa. Á síðustu haustdögum fengu menn að finna fyrir því svo um munaði að oft gengur illa. Hrun bankanna í upphafi októbermánaðar var sem köld vatnsgusa framan í mjög margt fólk sem hafði í góðri trú lagt fjármuni sína í fyrirtæki sem það hafði haft mikla trú á og sem það vildi bæta sinn eigin hag með jafnframt því að stuðla að uppbyggingu á atvinnulífi sem menn höfðu bundið miklar vonir við.

Eins og margoft hefur komið fram hafði það hrun sem varð í bankakerfinu í haust margvíslegar alvarlegar afleiðingar. Menn hafa kannski minna talað um afleiðingarnar sem það hafði fyrir þá fjölmörgu einstaklinga sem fjárfest höfðu í bankafyrirtækjum, fjármálafyrirtækjum og ýmsum öðrum skyldum fyrirtækjum. Venjulegt fólk sem hafði slitið þessa peninga nánast undan nöglunum til að geta lagt í þessa fjárfestingu varð fyrir gríðarlegu tjóni.

Það er oft talað um að það fólk sem leggi peninga í fyrirtæki sé fjármagnseigendur. Það er dálítið gildishlaðið hugtak sem lítur fram hjá því að þetta er almenningur sem tekur áhættu og leggur fjármuni í atvinnurekstur og í haust fór illa hjá mjög mörgum. Það er talið að 47.000 einstaklingar hafi tapað nærri því 130 milljörðum á einni viku vegna hlutabréfaeignar í bönkum sem núna eru orðin verðlaus. Á sama tíma töpuðu 1.400 lögaðilar, þ.e. fyrirtæki, 920 milljörðum af sömu ástæðum. Bak við þá tölu eru líka fjölmargir einstaklingar sem eiga nú um sárt að binda.

Það er athyglisvert að í þessum hópi eru talsvert margir eldri borgarar, fólk yfir 65 ára aldri. Það á sér eðlilega skýringu út af fyrir sig. Fjárráðin eru rýmri hjá fólki eftir að það er komið yfir erfiðasta skuldabaslið og þá leggja menn peninga í einhvers konar fjárfestingu til að bæta hag sinn og til að leggja grundvöllinn að áhyggjulausara ævikvöldi.

Á þessum tíma var oft vakin athygli á því að staða minni hluthafa í þessum stóru fyrirtækjum væri ekki sem skyldi. Mjög margir töluðu um þetta. Ég vek athygli á skrifum Morgunblaðsins í þessa veru. Ég vek athygli á frumkvæðishlutverki manna eins og Eyjólfs Konráðs Jónssonar sem flutti um þetta ræður og tillögur á Alþingi. Auðvitað var mjög margt gert til að reyna að bæta hag minni hluthafa í áranna rás og á síðustu kjörtímabilum eru fjölmörg dæmi um lagasetningu sem ríkisstjórnir höfðu frumkvæði að til að bæta hag minni hluthafa. Það er hins vegar alveg ljóst, sem við sjáum m.a. á afleiðingum þess hruns sem ég gerði að umtalsefni, að engu að síður var ekki nægilega vel að verki staðið í þessum efnum.

Það er líka ástæða til að nefna nafn Vilhjálms Bjarnasonar viðskiptafræðings sem hefur verið óþreytandi í því að vekja athygli á stöðu hinna minni hluthafa og hvernig þeir hafa oft og tíðum verið duldir upplýsingum um stöðu fyrirtækja sem þeir hafa fjárfest í og hafa ekki haft aðstöðu til að fylgjast nægilega vel með framvindu mála í þeim fyrirtækjum sem þeir fjárfestu í.

Menn spyrja hvernig hægt sé að skilgreina hugtakið minni hluthafar. Það verður verkefni þeirrar nefndar sem þessi þingsályktunartillaga gerir ráð fyrir að sett verði á laggirnar að skilgreina þetta hugtak nákvæmlega. Ég hygg þó að flestum sé nokkuð ljóst hvað hér er átt við. Hér er átt við almenning sem fjárfestir án þess að ætla sér ráðandi hlut í viðkomandi fyrirtæki en vill festa fé sitt í einstökum fyrirtækjum í ágóðaskyni eða til að styrkja grundvöll atvinnulífs, t.d. í heimabyggð. Við höfum ýmis hugtök sem löggjafinn hefur ekki verið í vandræðum með að skilgreina. Við þekkjum hugtök eins og fagfjárfesta sem er annað en hinir almennu fjárfestar þannig að það ætti ekki að vera vandamál að finna eðlilega skilgreiningu á þessu hugtaki.

Á undanförnum mánuðum, eftir hrun bankakerfisins í haust, höfum við heyrt fréttir af stórkostlegum lánveitingum til einstakra stærri hluthafa í þessum fyrirtækjum og jafnframt hafa borist fréttir af gífurlegri áhættutöku fyrirtækjanna án þess að minni hluthafar hafi getað gert sér grein fyrir hvað væri á seyði að öllu leyti. Þess vegna er að mínu mati mjög mikilvægt að reyna að styrkja stöðu minni hluthafanna og gera þeim kleift að fá aðgang að þeim upplýsingum sem þeir þurfa á að halda til að geta tekið ákvörðun um það hvort þeir haldi hlutafé, hvort þeir fjárfesti eða hvað þeir geri við fjármuni sína.

Á 130. löggjafarþingi hafði ég frumkvæði að tveimur frumvörpum sem áttu að taka að nokkru leyti á málum minni hluthafa í landinu. Þau frumvörp eru fylgiskjöl II og III með þingsályktunartillögunni og í sjálfu sér er ekki ástæða til að fara mörgum orðum um þau. Rauði þráðurinn er sá að reynt er að styrkja stöðu minni hluthafanna þannig að þeir geti haft meiri áhrif á það sem gerist í þessum stóru félögum, og minni félögum svo sem líka. Því miður var hvorugt þessara mála afgreitt úr þinginu. Ég vil ekki segja að það hafi verið vegna linkindar Alþingis en svona fór þetta í þessum tilvikum. Þó voru engir aukvisar meðflutningsmenn mínir. Það voru hv. þm. Halldór Blöndal, Jóhanna Sigurðardóttir, Hjálmar Árnason, Steingrímur J. Sigfússon og Guðjón A. Kristjánsson. Þrjú þeirra hafa orðið formenn stjórnmálaflokka. Tvö þeirra eru núna ráðherrar í ríkisstjórninni og bæði formenn þeirra stjórnmálaflokka sem standa að núverandi ríkisstjórn.

Ég geri ráð fyrir því að um þetta mál geti tekist býsna breið almenn pólitísk samstaða í ljósi þess að í þessum frumvörpum hefur komið fram skýr vilji af hálfu þessara stjórnmálaforingja fyrir því að tekið sé á þessum málum. Auðvitað má velta fyrir sér hvort leggja hefði átt fram sérstakt frumvarp í þessum efnum hér og nú. Mín niðurstaða var sú að hér væri um að ræða býsna flókið mál og viðurhlutamikið sem ástæða væri til að fara ofan í af sérfræðingum til að róa fyrir allar víkur í þessum efnum. Þau frumvörp sem ég gerði að umræðuefni taka auðvitað ekki til nema afmarkaðs þáttar þess viðfangsefnis sem gert er ráð fyrir í þingsályktunartillögunni að tekist verði á við. Ég tel þess vegna eðlilegt eins og lagt er til í tillögunni að sett verði á laggirnar nefnd sérfróðra manna sem móti tillögur í þessum efnum sem hafi það að markmiði sem ég hef hér gert að umtalsefni.

Það væri ekki óeðlilegt að þessi nefnd fengi tiltölulega skamman tíma að þessu sinni. Það væri ekki óeðlilegt að ætla henni að ljúka verkefni sínu fyrir árslok á þessu ári. Það tel ég að væri mjög vel gerlegt ef þingið lyki afgreiðslu málsins fyrir sumarið þannig að hægt yrði að setja á laggirnar þá starfsnefnd sem gæti unnið þetta mál.

Ástæðurnar fyrir því að ég tel skipta máli að tiltölulega hratt og vel verði unnið að þessu máli eru margar. Það hefur orðið algjör trúnaðarbrestur hjá almenningi gagnvart því að fjárfesta í fyrirtækjum. Það er ótti við það að fjárfesta vegna þess að mjög margir hafa brennt sig á þessu soði og tapað miklum fjármunum. Örugglega munu núna mjög margir hugsa sig tvisvar um áður en þeir fjárfesta í fyrirtækjum. Við sjáum líka vísbendingar um að almenningur færir frekar peninga sína í aðrar fjárfestingar en í fyrirtæki, leggur peninga á bók, kaupir varin skuldabréf o.s.frv. til að taka enga áhættu. Þess vegna er hluti af því að endurvekja traust fólks á atvinnulífið að búa til lagaumhverfi og lagaramma utan um fjárfestingar almennings sem tryggir það að fólk geti verið rólegra með að fjárfesta í atvinnurekstri. Auðvitað er fjárfesting í atvinnurekstri í eðli sínu alltaf áhætta en við viljum a.m.k. stuðla að því að fólk sé þá betur meðvitað um það, betur upplýst um það í hverju áhættan geti verið fólgin þannig að almenningur geti út frá því sjónarhorni tekið ákvarðanir um fjárfestingar sínar.

Það er að mínu mati ákaflega mikilvægt að hugað sé að þessu máli. Það má líka færa fyrir því rök að þetta geti sameinað tvennt sem mjög hefur verið rætt um eftir bankahrunið. Þetta getur verið liður í því að slá skjaldborg um stöðu heimilanna því að fjárfesting í atvinnurekstri getur verið ábatasöm fyrir almenning og getur verið þáttur í því að fólk geti ávaxtað sparifé sitt. Hitt sem áhersla hefur líka verið lögð á og skiptir mestu máli er að koma fótunum að nýju undir atvinnulífið. Það verður ekki gert nema inn í atvinnulífið streymi þolinmótt áhættufjármagn, fjármagn frá fólki sem er tilbúið til að leggja sitt af mörkum til að byggja upp atvinnulíf og hafa þar einhver áhrif.

Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér ekki ástæða til að hafa mörg fleiri orð um þetta umfram það sem ég hef þegar haft hér. Ég vek athygli á þeim tölum sem lagðar eru fram í fylgiskjali I sem sýna það mikla tap sem varð við hrun bankanna hjá almenningi í landinu sem fjárfesti í fjármálafyrirtækjum. Þetta segir ekki nema hluta af sögunni vegna þess að við vitum að hrun fjármálafyrirtækjanna hafði alvarleg áhrif á stöðu margra annarra fyrirtækja. Við vitum líka að áður en bankarnir hrundu hafði orðið veruleg lækkun á markaðsverði hlutafjár þannig að mjög margir höfðu orðið fyrir miklum skakkaföllum áður en til hrunsins kom.

Í öðru lagi tel ég að það veganesti sem er lagt á borð með þessari þingsályktunartillögu, þau tvö frumvörp sem ég hef gert hér að umtalsefni, marki á vissan hátt þá stefnu sem flutningsmenn telja að eigi að liggja til grundvallar, þ.e. að reyna að styrkja stöðu almennings sem vill taka þátt í atvinnulífinu á heiðarlegum forsendum af ástæðum sem ég hef þegar gert að umtalsefni.

Virðulegi forseti. Ég trúi því að um þetta mál geti orðið ágæt pólitísk samstaða. Ég tel allar forsendur fyrir því að það verði afgreitt fyrir þinglok. Ég hlýddi með athygli á miklar heitstrengingar hv. þingmanna, m.a. úr viðskiptanefnd, sem töluðu um nauðsyn þess að þingið styrkti sjálfstæði sitt og hlutverk. Hluti af því gæti auðvitað verið það að afgreiða mál af þessu tagi frá sér fyrir sumarbyrjun áður en þinginu lýkur. Þannig væri hægt að undirbúa vandað lagafrumvarp og leggja það fyrir Alþingi. Með þeim hætti hefur Alþingi bein áhrif á stefnumótunina vegna þess að þarna eru annars vegar lagðar fram tillögur um að taka á tilteknum afmörkuðum mikilvægum þætti efnahagsumhverfis okkar og viðskiptaumhverfis og hins vegar er framkvæmdarvaldinu gefin yfirlýsing — menn hafa dálítið sproksett framkvæmdarvaldið hér í dag — um að menn vilji að tekið verði á þessu afmarkaða verkefni.

Ég treysti hv. viðskiptanefnd til að afgreiða málið á tilsettum tíma áður en þinginu lýkur þannig að við getum fengið þetta mál sem fullbúið frumvarp síðar á þessu ári.