137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

endurreisn bankakerfisins -- fundur í viðskiptanefnd.

[13:38]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég rak augun í sömu grein og þingmenn hafa verið að tala um og mér brá satt að segja við að kostnaðurinn við endurreisn bankanna yrði ekki 385 milljarðar eins og gert var ráð fyrir í upphafi heldur yrði hann í kringum 1.250 milljarðar. Ég held að það sé full ástæða til að þinginu verði gerð grein fyrir því hvaðan þessi kostnaður er upprunninn, í hvað hann á að fara.

En það er eitt sem mig langar til að gera, hæstv. forseti, og það er að fylgja eftir þeirri umræðu sem varð hér í gær og spyrja: Getur verið að það hafi orðið einhverjar breytingar á samræmingarnefnd bankanna í kjölfar þeirrar sennu sem varð milli Mats Josefssons og stjórnvalda í síðustu viku? Mér þætti vænt um að heyra það. Og jafnframt spyr ég, af því að búið er að tala um það bæði í gær og í dag að þetta sé versta óáran sem riðið hefur yfir nokkra þjóð, að engin þjóð hafi lent jafnilla í því: Getur verið að þessi kreppa muni verða verri en hún var í Færeyjum þegar landsframleiðslan féll um 20% á einu ári og allt bankakerfið var yfirtekið af stjórnvöldum í öðru landi? Ef svo er verður að gera þinginu grein fyrir því.