137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

endurreisn bankakerfisins -- fundur í viðskiptanefnd.

[13:49]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Við Íslendingar stöndum frammi fyrir meiri vanda en nokkur dæmi eru um í sögu okkar og þótt víðar sé leitað. Það er áreiðanlega rétt og satt að vandinn er ekki minni en menn hafa verið að ímynda sér að hann væri. Hér er vitnað í sænskan bankasérfræðing og ég hygg að það sé ekki ofsagt að sá vandi sem við stöndum frammi fyrir verður ekki auðleystur.

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson kemur í ræðustól á þessum degi fullur vandlætingar og telur sig þess umkominn að tala um gagnsæi og opna stjórnarhætti. Ég er ekki viss um að hann sé rétti maðurinn til þess að koma og tala á þeim nótum. Það er að sjálfsögðu eðlilegt og sanngjarnt og sjálfsagt að ræða þau mál sem hér eru til umfjöllunar í hv. viðskiptanefnd. Ég hef skilið hv. formann nefndarinnar á þann veg að það verði gert. Það er eðlilegt að þingið reyni að fá botn í það sem haft er eftir þessum sænska bankasérfræðingi í erlendum fjölmiðlum. Það er mikilvægt. Vegna þess að ef sá skilningur sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson og fleiri hafa lagt í orð hans er réttur þá eru þar á ferðinni upplýsingar sem eru nýjar fyrir okkur öll og mikilvægt að fá niðurstöðu í þær. Ég tel hins vegar eðlilegt að byrja á því að fá þær upplýsingar fram með óyggjandi hætti, hvað þar er á ferðinni. (Gripið fram í.) Það er rétt að gera það á vettvangi viðskiptanefndar að mínu mati.

Við eigum ekki, virðulegi forseti, að týna okkur í karpi eins og því sem hér hefur farið fram. Vandinn sem við stöndum frammi fyrir sem þjóð er allt of alvarlegur til þess og það er mikilvægt að öll stjórnmálaöfl, ríkisstjórnarflokkarnir og stjórnarandstöðuflokkarnir, taki höndum saman um að vinna bug á þeim (Forseti hringir.) vanda. Þjóðin á það skilið og þjóðin þarfnast þess.