137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[15:52]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í stjórnarsáttmála er gert ráð fyrir því að hrinda málum í framkvæmd á kjörtímabilinu. Það stóð aldrei annað til en að ljúka því máli á tilsettum tíma. Þessi mál voru oft rædd, m.a. í þinginu og þá lýsti ég því yfir að minn einlægi ásetningur væri að þessu verki yrði lokið í tæka tíð fyrir lok kjörtímabilsins þannig að hægt yrði að hrinda í framkvæmd þeim lagabreytingum sem nauðsynlegar væru til að fullnusta þetta ákvæði stjórnarsáttmálans sem báðir flokkarnir voru ásáttir um.

Hins vegar var mjög margt gert á þeim 18 mánuðum sem ríkisstjórnin starfaði sem stuðlaði að því að vinna að framgangi þessa ákvæðis stjórnarsáttmálans þó að sjálf nefndin hafi ekki enn verið skipuð þegar ríkisstjórnin fór frá. (Gripið fram í.)