137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[17:54]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í sjálfu sér má velta þessari skiptingu í landsvæði fyrir sér en ég ítreka það sem ég sagði áðan að byggðatengingin er mjög mikilvægur þáttur í þessu. Vel má hugsa sér að tengja það enn fastar við byggðirnar en þá sáu menn líka galla varðandi eftirlitsþáttinn, að hann yrði þá umfangsmikill, en mér finnst sjálfsagt að nefndin skoði þetta.

Ég legg áherslu á að með þessari aðgerð er jafnframt sett inn viðbótaraflaheimild upp á 2.500 tonn til að auka heildarmagnið sem þarna er til ráðstöfunar, er til að veiða. Það er verið að rýmka þetta hvað þetta varðar í heild sinni. Ég verð að biðja hv. þm. Einar K. Guðfinnsson að minnast þess að við erum þó ekki að skera niður núna. Á síðasta ári var byggðakvótinn minnkaður um 500 tonn. (Gripið fram í.) Nei, nú aukum við þann afla sem er til ráðstöfunar í þessum byggðum um 2.500 tonn.

Ég treysti hv. þingmönnum í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd til að bera þetta mál áfram þannig að það fái sem allra fyrst afgreiðslu. Ég þakka góðar umræður.