137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

35. mál
[19:11]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi samninga eða viðræður við garðyrkjubændur er það rétt að ég geri ráð fyrir að hitta fulltrúa þeirra að máli í þessari viku. Það verður fyrsti fundur minn með þessum aðilum sem ráðherra. Ég mun þá heyra sjónarmið þeirra, hvað þeir leggja til í þessum efnum. Ég tek undir það að þetta mál þarf að leysa og við þurfum að geta stutt garðyrkjuna eins og nokkur kostur er. Ég hef áður sagt, og stend við það, að ég tel nær að gefa garðyrkjunni hagstæða raforkusamninga en álverunum, alla vega mætti þar vera svolítið minni munur á, því að við eigum tvímælalaust mikla möguleika þarna. Þetta mál þarf líka að ræða með fleiri ráðuneytum og ég mun leggja mitt af mörkum hvað það varðar. Minn vilji stendur til þess að þarna náist góð lausn. Ég mun hitta þá í vikunni og ræða það.

Ég fagna góðum orðum hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar hvað það varðar að þessir samningar megi ganga í gegnum þingið. Væntingar mínar standa til þess að bændur samþykki þá frá sinni hlið. Þá mun ekki heldur standa á Alþingi og ríkisvaldinu að samþykkja þá frá sinni hlið þegar sú stund kemur.