137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

umræða um stöðu heimilanna.

[13:34]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vil taka undir þær athugasemdir sem fram hafa komið af hálfu hv. þingmanna sem hafa gert athugasemd við að ekki hafa fengist nægilega skýrar útskýringar á því hvers vegna boðuð umræða um jafnmikilvægt mál og fjármál, um stöðu heimilanna, getur ekki farið fram. Það er rétt að taka það fram að við höfum skilning á því ef hæstv. forsætisráðherra er önnum kafin við verkefni sem þola enga bið. En það er mjög mikilvægt, fyrst talað er um að það þurfi að vera gott samstarf á milli ríkisstjórnarinnar og Alþingis, að þegar svona kemur upp eins og í dag þar sem löngu boðuð umræða um jafnmikilvægt mál eins og það sem hér átti að ræða getur ekki farið fram, séu gefnar skýringar sem komið sé til skila til þingflokkanna, sérstaklega til þeirra sem báðu um umræðuna. Menn hafi það þá á hreinu hvers vegna hæstv. forsætisráðherra hefur ekki tíma til að koma í þingið til að sinna umræðunni.

Ég ítreka að við gerum okkur grein fyrir því að það kunna að vera lögmætar, eðlilegar og gildar ástæður fyrir því en við þurfum að fá að vita þær og í tæka tíð.