137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

niðurgreiðsla á rafmagni til húshitunar.

25. mál
[13:49]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil fagna þessari fyrirspurn frá hv. 2. þm. Norðaust. Birki Jóni Jónssyni. Þetta er brýnt hagsmunamál fyrir byggðir landsins. Eins og kom fram hér áðan eru um 9% heimila háð þessum orkugjöfum sem eru dýrir og kostnaðarsamir.

Hér er náttúrlega spurt um grundvallarsjónarmið í pólitík, jafnrétti til búsetu. Við hljótum að hafa það í huga. Eins og ég gat um í ræðu fyrr á þessu þingi þá snýst þetta um það hvort við viljum hafa eina og sömu þjóðina í þessu landi eða tvær ólíkar þjóðir.

Við hljótum að geta sammælst um að velja þann kostinn sem er heiðarlegastur, þ.e. að hér búi ein og sama þjóðin. Ég held því að allir þingmenn hljóti að geta tekið undir það að við þurfum að standa okkur í þessum efnum. Ég fagna því þessari fyrirspurn frá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni og legg áherslu á að þingmenn séu ekki að deila um þetta efni. Þetta er sjálfsagt mannréttindamál.