137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

Atvinnuleysistryggingasjóður.

27. mál
[14:08]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Það var mjög merkileg ræða sem hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra hélt áðan. Hann virðist vera úr öllum tengslum við það sem er að gerast í landinu. Staðan er þannig núna meðal fyrirtækjanna að vanskil hafa sextánfaldast frá því fyrir rúmu ári. Vanskil sem eru lengri en þriggja mánaða eru 160 milljarðar, tæplega 100 fyrirtæki fara á hausinn í hverjum mánuði. Við höfum ekki virkt bankakerfi til að gefa atvinnulífinu það blóð sem það svo nauðsynlega þarf. Það að halda að þetta sé einhver gunguskapur í fyrirtækjarekendum, að þeir þurfi bara meira hugrekki til að ráða til sín fólk til að vinna bug á atvinnuleysinu, ber vott um algert skilningsleysi á því sem er að gerast á Íslandi og algera vankunnáttu. Þið þurfið að gera eitthvað.