137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

framtíðarskipan Hólaskóla.

9. mál
[14:27]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Geirs H. Haarde frá 23. maí 2007 voru boðaðar tilteknar breytingar á skipan verkefna á milli ráðuneyta. Ríkisstjórnin samþykkti síðan, að tilhlutan Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra, að skipa starfshóp til að koma með tillögur um framtíð og skipan skólahalds á Hólum í Hjaltadal.

Starfshópurinn var skipaður með erindisbréfi og þar kom m.a. fram að honum var ætlað að koma fram með tillögur sem stuðlað gætu að frekari uppbyggingu og eflingu Hólaskóla til framtíðar, m.a. með hliðsjón af þeirri endurskipulagningu háskólastigsins sem farið hefur fram á undanförnum árum og frumvarpi um ríkisháskóla sem þá lá fyrir í drögum en er nú orðið að lögum. Í erindisbréfinu segir líka að starfshópurinn skuli miða tillögur sínar við að tryggilega verði haldið utan um málefni Hólastaðar og að Hólar haldi reisn sinni og stöðu sem miðstöð mennta, menningar og kirkjulegra málefna. Einnig var gert ráð fyrir að hópurinn hefði samráð við aðila í héraði.

Við vitum að Hólaskóli gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki sem skólastofnun en einnig sem stofnun í héraðinu. Hólaskóli er vísindaleg fræðslu- og rannsóknarstofnun á háskólastigi og starfar samkvæmt lögum. Hann er miðstöð kennslu og rannsókna í hrossarækt og reiðmennsku, fiskeldi og fiskalíffræði og ferðamálum. Ég vil líka geta þess að skólinn hefur fengið viðurkenningu fræðasviða í samræmi við lög um Háskóla Íslands.

Við Hólaskóla starfa nú um 60 manns, eða síðast þegar ég vissi, í 47 stöðugildum. Á árinu 2007–2008 voru þar skráðir 167 nemendur og á bak við þá eru 90 nemendaígildi. Á Hólum er rannsóknarstarf vaxandi á öllum sviðum og það er styrkt með öflugu samstarfi við aðrar háskólastofnanir.

Skólinn hefur hins vegar búið við fjárhagslegar þrengingar eins og allir vita. Í framhaldi af starfi nefndarinnar, sem ég vísaði til, var gert ráð fyrir því, bæði í fjáraukalögum fyrir árið 2008 og eins í fjárlögum eins og þau voru afgreidd 2009, að leggja verulega fjármuni inn í skólann. Hins vegar hefur komið í ljós að fjárhagsvandi skólans er enn meiri en menn ætluðu á þessum tíma og þess vegna varð niðurstaðan sú að skólanum var settur tilsjónarmaður til þess að fara yfir málin og reyna að átta sig betur á umfangi þess vanda sem við var að glíma — fara sem sagt yfir það hvernig hægt væri að ná utan um þann rekstrarvanda sem skólinn hefur búið við.

Nú hefur nokkuð liðið frá því að þær ákvarðanir sem teknar voru rétt fyrir síðustu áramót voru teknar. Fyrir liggur skýrsla þeirrar nefndar sem ég vísaði til og þess vegna hef ég nú leyft mér að spyrja hæstv. menntamálaráðherra, á þingskjali, um framtíðarskipan Hólaskóla með eftirfarandi spurningum.

Hverjar voru meginniðurstöður nefndar ráðherra um framtíðarskipan Háskólans á Hólum? Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að hrinda þeim áformum í framkvæmd?