137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

framtíðarskipan Hólaskóla.

9. mál
[14:39]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda þessa umræðu sem gefur tilefni til þess að horfa vítt til veggja varðandi háskólanám á Íslandi. Það er alveg ljóst að sá skóli sem hér um ræðir hefur átt við töluverða fjárhagserfiðleika að etja og sömuleiðis landbúnaðarháskólinn sem hér var nefndur. Umræða um fjármögnun á háskólastiginu hefur verið mjög mikil og varð sérstaklega erfið í tengslum við fjárlagagerð fyrir árið 2009.

Ég kem fyrst og fremst hingað upp til að hvetja hæstv. ráðherra til þess að gæta að því að í þeirri vinnu sem fram undan er, og í erfiðleikunum við að fjármagna þessar stofnanir, verði ekki farið út í það að háskólastarfseminni verði allri miðstýrt frá Vatnsmýrinni í Reykjavík. Ég vil hvetja til þess að þær háskólastofnanir sem starfandi eru út um land í ýmsum byggðakjörnum hafi möguleika á því að kynna sér annað rekstrarform, t.d. sjálfseignarstofnanir, þannig að aðkoma og áhrif heimamanna að þessum rekstri og þessari starfsemi verði betur tryggð en hingað til hefur verið.