137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

Nýsköpunarsjóður námsmanna.

23. mál
[14:45]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Staða námsmanna í dag er mjög erfið, a.m.k. hjá mörgum þeirra, erfiðleikar við að fá vinnu í ljósi mikils atvinnuleysis og við hljótum að velta fyrir okkur hvernig kröftum þeirra sé best varið núna þegar sumarið er að ganga í garð. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. menntamálaráðherra um Nýsköpunarsjóð námsmanna: Hvernig hyggst hæstv. ráðherra efla nýsköpunarsjóðinn og þar með fjölga tækifærum og störfum fyrir námsmenn?

Eftir að ég lagði þessa fyrirspurn fram kom fréttatilkynning frá menntamálaráðuneyti og iðnaðarráðuneyti um að 15 millj. hefðu verið settar í það að styrkja nýsköpunarsjóðinn þannig að í raun og veru er búið að svara þessari spurningu að hluta. En ég velti fyrir mér hvaða áhrif þessi fjárframlög hafi, hvort þetta sé nægjanlegt til að mæta þeirri brýnu þörf sem blasir við hjá námsmönnum, hvort ekki sé rétt að við virkjum það hugvit sem býr í ungu og mjög frjóu fólki og við eflum þennan sjóð enn frekar. Ég get nefnt því til staðfestingar að árið 2003 var 161 verkefni til handa námsmönnum styrkt en einungis 79 árið 2008, það voru því helmingi færri verkefni styrkt árið 2008 en árið 2003. Ég velti fyrir mér í þessu samhengi hversu mikil fjölgun verður við þær 15 milljónir sem iðnaðarráðuneytið og menntamálaráðuneytið hafa ákveðið að verja til nýsköpunarsjóðsins en við gerum okkur grein fyrir því að vandamálið er mjög stórt. Næsta fyrirspurn, sem ég beini til hæstv. ráðherra á eftir, er einmitt um sumarnám í háskólum landsins og þessar tvær spurningar tengjast í raun og veru því mikla vandamáli sem blasir við námsmönnum í dag. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hún telji að nóg sé að gert að setja 15 millj. kr. í Nýsköpunarsjóð námsmanna, hvort það mæti þeirri gríðarlega miklu þörf sem er í samfélaginu og hvort ekki væri rétt að reyna að ná mjög víðtæku samstarfi, m.a. líka við sveitarfélögin, um að efla nýsköpunarsjóðinn enn frekar þannig að ungt og hæfileikaríkt fólk geti komið hugmyndum sínum í framkvæmd í gegnum þennan mikilvæga nýsköpunarsjóð sem ég tel að við þurfum að efla á tímum sem þessum.