137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

Nýsköpunarsjóður námsmanna.

23. mál
[14:48]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrirspurnina. Ég veit að hann, eins og ýmsir aðrir þingmenn, hefur áhyggjur af atvinnumálum námsmanna. Það er rétt að sú ákvörðun var tekið af menntamálaráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra að styrkja sjóðinn til viðbótar núna um 15 millj. og koma þar 5 millj. frá menntamálaráðuneyti og 10 frá iðnaðarráðuneyti. Þetta er auðvitað umtalsverð viðbót í ljósi þess að heildarfjármunir sjóðsins hafa verið í kringum 40 millj., 20 frá menntamálaráðuneyti og 20 frá Reykjavíkurborg. Aðrir aðilar að sjóðnum eru Framleiðnisjóður landbúnaðarins og önnur sveitarfélög en framlög þeirra samanlagt eru í kringum 1–2 millj. Ég þori ekki að fara alveg nákvæmlega með töluna.

Það sem er kannski athyglisvert við þetta er að sjóðurinn var stofnaður 1992 en grunnframlög til sjóðsins hafa hækkað mjög lítið á undanförnum árum og hlutfall þeirra umsókna sem hafa fengið styrki hefur á sama skapi farið niður á við. Í vor var það svo að rétt ríflega 20% umsókna fengu styrki eða u.þ.b. 23%. Þau verkefni voru hins vegar með ríflega 100 störf á bak við sig, þ.e. það voru fleiri störf í kringum hvert verkefni en fengu. Þarna er auðvitað um umtalsverða hækkun að ræða, úr 40 millj. í 55 millj., þannig að við vonumst til að sjá fram á nokkra fjölgun. Við áttum von á að hugsanlega gætu u.þ.b. 120 manns fengið störf og þarna gætu verið að bætast við 40–50 störf. Það fer auðvitað eftir verkefnum og hvernig þau raðast.

Ég vil líka segja að það er frábært tækifæri fyrir námsmenn að sækja um styrki í nýsköpunarsjóð og vinna þannig að verkefnum þar sem þeir nýta frumkvæði sitt og eigin kraft, sínar eigin hugmyndir. Þarna hefur skapast samstarf nemenda milli deilda og þarna hafa skapast þverfagleg verkefni. Þarna hafa nemendur kynnst sjálfstæðum vinnubrögðum, sjálfstæðum rannsóknum oft í fyrsta sinn af eigin raun í gegnum Nýsköpunarsjóð námsmanna. Þessi sjóður hefur kannski verið minna sýnilegur á undanförnum árum en hann var áður fyrr og ég tel að það sé full ástæða til að skoða hvort hægt sé að styrkja hann varanlega. Þessi aukafjárveiting kemur þannig til að þarna er í raun og veru fært af öðrum liðum til að styrkja þennan sjóð núna. Ég held hins vegar að við verðum að líta til þess að þarna erum við að horfa á atvinnusköpun í þeim anda sem við teljum æskilegan, þar sem byggt er á nýsköpun og byggt er á þekkingu. Þarna vinnur fólk verkefni sem oft þróast áfram í að verða eitthvað meira og oft koma líka inn fyrirtæki með mótframlög þannig að það skapast tenging háskólasamfélags og atvinnulífs sem er mjög æskileg ef við ætlum byggja hér áfram á tækniþróun og nýsköpun.

Ég tel að það eigi að skoða það þrátt fyrir erfitt efnahagsástand hvort við getum styrkt sjóðinn varanlega með frekari fjármunum því að þarna sjáum við atvinnusköpun sem er í raun og veru ódýr því að laun námsmanna sem vinna við nýsköpunarsjóðinn eru ekki há en geta um leið haft mikinn virðisauka í för með sér. Við sjáum líka fram á að nemendur gera eitthvað annað en þeir gera dagsdaglega í sínu háskólanámi. Þeir sinna einhverju út frá eigin hugmyndum og eigin forsendum, oft í tengslum við atvinnulífið. Ég tel að Nýsköpunarsjóður námsmanna sé ein af þeim mikilvægu brúm sem þarf að styrkja og tryggja á milli háskólasamfélags og atvinnulífs. Ég ætla kannski ekki að hafa frekari orð um það önnur en þau að ég vonast til að við sjáum að þessi fjárveiting nýtist vel og reyndar er ég ekki í nokkrum vafa miðað við það hversu mörgum umsóknum var hafnað núna sem þóttu þó fullframbærilegar hreinlega af því að ekki voru til fjármunir. Ég veit að þessir peningar eiga eftir að nýtast vel en ég tel líka að það eigi að skoða það hvort ekki sé ástæða til að efla sjóðinn til varanlegrar framtíðar.