137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

Nýsköpunarsjóður námsmanna.

23. mál
[14:54]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og hv. þm. Skúla Helgasyni fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Það eru nefnilega fjölmörg tækifæri í þeirri stöðu sem blasir við okkur í dag og ég held að ungt fólk sé jafnvel betur í stakk búið til að fá nýjar ferskar hugmyndir í þeirri stöðu. Við þurfum að virkja hugvitið, við þurfum að kalla fram það besta í okkar hæfileikaríkasta fólki og þess vegna er ég alveg viss um að þeir fjármunir sem við leggjum fram í Nýsköpunarsjóð námsmanna skila sér margfaldlega út í samfélagið. Eins og hv. þm. Skúli Helgason nefndi áðan borgar fólk skatta og skyldur af störfum sínum og síðan geta skapast mörg afleidd störf í framhaldinu sem geta veitt ríkissjóði og samfélaginu öllu ómældan hagnað og ágóða. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra í ljósi þess að árið í ár og trúlega næstu tvö ár verða mjög erfið í okkar samfélagi: Hefur hæstv. ráðherra hugleitt það að kalla til fleiri sveitarfélög, jafnvel atvinnulífið, að þessum sjóði með a.m.k. tímabundið framlag til að mæta þeim erfiðu tímum sem blasa við okkur, gera nýsköpunarsjóðinn öflugri, gera hann sýnilegri, markaðssetja hann þannig að fólk viti að þessi sjóður er fyrir hendi þannig að það kalli fram ákveðið frumkvæði hjá námsmönnum? Ég er viss um að ef fleiri vissu og væru meðvitaðir um að hann er til staðar mundi umsóknum fjölga, jafnvel góðum umsóknum sem gætu leitt af sér fullt af tækifærum og störfum fyrir íslenskt samfélag sem er nauðsynlegt í dag. Ég spyr hæstv. ráðherra um leið og ég lýsi yfir ánægju með að verið er að styrkja þennan sjóð, hvort ekki sé tilefni til þess í ljósi allrar umræðunnar um þjóðarsátt að kalla fleiri aðila að borðinu um það hvort hægt sé að efla sjóðinn með einhverjum hætti. Þá er ég hugsa jafnvel um háskólana, sveitarfélögin, atvinnulífið, ríkið, hugmyndir um að gera þennan sjóð að öflugri sjóði en hann er í dag sérstaklega á tímum eins og við búum við um þessar mundir.