137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

Nýsköpunarsjóður námsmanna.

23. mál
[14:56]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni, ég held að full ástæða sé til að skoða það að kalla fleiri aðila að borðinu. Ég vil minna á að þegar þessi sjóður var stofnaður á sínum tíma, árið 1992, að frumkvæði stúdenta var í raun og veru farið mjög veglega af stað, þá urðu til nýsköpunarverðlaun forseta Íslands sem ávallt hafa hlotið athygli í fjölmiðlum. Þar hafa birst námsmenn með framúrskarandi verkefni sem seinna að nokkrum árum liðnum hafa birst sem framúrskarandi vísindamenn jafnvel í eigin atvinnustarfsemi eða innan háskólasamfélagsins. Sjóðurinn hefur því vissulega verið mjög dýrmætur vaxtarsproti og það má eiginlega segja að ekki hafi verið lagt nægilega til hans. Fé til hans hefur ekki verið aukið á síðustu árum, kannski af því að þörfin hefur ekki verið fyrir hendi. En sú atvinnuþörf sem hv. þm. Skúli Helgason benti á var vissulega til staðar þegar sjóðurinn var stofnaður á sínum tíma.

Ég get tekið undir með hv. þm. Birki Jóni Jónssyni að það er full ástæða til að skoða það að kalla fleiri að borðinu. Sem stendur er það Reykjavíkurborg sem leggur til framlag en auðvitað sækja námsmenn úr fleiri sveitarfélögum í sjóðinn. Þarna gætum við verið að horfa fram á ódýra atvinnusköpun þar sem lögð er áhersla á þekkingarþróun og spennandi atvinnu fyrir námsmenn í háskólum landsins þar sem þeir virkja hugmyndir sínar, kraft sinn og frumkvæði, sem er nákvæmlega það sem við þurfum að reiða okkur á sem þjóð einmitt þegar illa árar. Ég tek því undir með hv. þingmanni að liður í því að efla sjóðinn varanlega væri að kalla fleiri aðila að þessu borði.