137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

sumarnám í háskólum landsins.

24. mál
[14:58]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég vil halda áfram að inna hæstv. menntamálaráðherra eftir stöðu námsmanna og hvernig sumarið sem í vændum er muni blasa við þeim þúsundum einstaklinga sem stunda nám við háskóla landsins. Því spyr ég hæstv. menntamálaráðherra: Hvað er áætlað að margir einstaklingar muni leggja stund á sumarnám í háskólum landsins sumarið 2009 og hversu margir sóttu um slíkt nám?

Það er ljóst að við sem samfélag högnumst á því að ungt fólk haldi áfram að stunda sitt nám og ná sér í aukna þekkingu í sumar frekar en að mæla göturnar og gera lítið sem ekki neitt og þiggja jafnvel atvinnuleysisbætur, þ.e. þeir námsmenn sem hafa rétt á slíku. Kennarar við háskóla landsins hafa sýnt glæsilegt fordæmi. Margir vinna launalaust í sumar við að kenna á sumarönninni og það framlag kennarastéttarinnar er mjög lofsvert og ljóst að það er hluti ákveðinnar þjóðarsáttar frá þeirri starfsstétt vil ég meina. Það er gríðarlega mikilvægt að námsmenn geti ótrauðir haldið áfram að auka við þekkingu sína og þess vegna væri mjög áhugavert að heyra það frá hæstv. ráðherra hversu margir námsmenn ætla að stunda sumarnám við háskóla landsins í sumar og hvort einhverjir námsmenn fengu höfnun vegna slíks.

Ég fékk fyrirspurn frá námsmanni um daginn sem sagðist hafa ákveðið að sækja um tvö námskeið. Og vegna þess að hann sótti um tvö námskeið en ekki eitt eða þrjú á hann ekki rétt á atvinnuleysisbótum sem hann hefði átt ef hann hefði sótt um eitt og hann á ekki rétt á námslánum ef hann hefði sótt um þrjú. Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því hvort þetta geti verið rétt. Ef svo er þurfum við náttúrlega að sníða þennan galla af núverandi kerfi því að sjálfsögðu á ekki að refsa viðkomandi einstaklingi fyrir að velja tvö námskeið í staðinn fyrir eitt og hann fái þar af leiðandi ekki atvinnuleysisbætur.

Þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða og mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra mundi bregðast við þessu í ljósi tölvupósts sem ég fékk á dögunum. En fyrst og síðast var spurningin um þetta stóra mál, sem m.a. kennarar í háskólum landsins hafa gert kleift: Hversu margt ungt fólk mun stunda sumarnám við háskóla landsins? Var einhverjum hafnað sem sótti um slíkt nám? Ef svo er væri það miður.