137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[10:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra talar mikið um lýðræðislegar aðferðir og hann er samt að leggja fram tillögu til þingsályktunar um að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn. Af hverju í ósköpunum ekki þjóðin? Af hverju í ósköpunum greiðir þjóðin ekki atkvæði um það hvort ríkisstjórnin leggi inn umsókn? Af hverju Alþingi? Hvar eru lýðræðislegu hefðirnar hjá hæstv. ráðherra?

Síðan vil ég spyrja ráðherra að því hvernig hann sér Evrópusambandið eftir 50 eða 100 ár? Nú eru breytingar í gangi. Það er verið að tala um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Það minnir á það að Drottinn gaf og Drottinn tók. Því sem Evrópusambandið getur breytt í eina átt getur það breytt í aðra átt, þ.e. það getur tekið fiskveiðiréttinn aftur af okkur. Þetta er í stöðugri breytingu og hefur verið það í 60 ár og sú breyting stoppar ekki við það að Íslendingar gangi þarna inn.

Síðan er spurningin um kostnað í tíma og mannafla. Í fyrsta lagi kostnað í tíma og svo það að binda öll ráðuneyti við það að sækja um aðild (Forseti hringir.) á þeim tímum sem við lifum núna þar sem veitir ekki af öllum krafti ráðuneytanna í það að vinna úr vanda heimilanna.