137. löggjafarþing — 9. fundur,  28. maí 2009.

olíugjald og kílómetragjald o.fl.

56. mál
[19:11]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að flestir ef ekki allir hérna inni hafi skilning á því að það þarf að afla tekna fyrir ríkissjóð og auglýst er hvað eftir annað eftir einhverri heildaráætlun í því samhengi þannig að hægt sé að taka afstöðu til heildarmyndarinnar. Ég hlýt enn að nota tækifærið til þess að auglýsa eftir þeirri heildaráætlun af þessu tilefni og að menn vinni hratt og vel í því samhengi. Kannski leyfist líka þingmönnum stjórnarandstöðunnar að sjá þær upplýsingar sem lagðar voru fyrir þingmenn stjórnarflokkanna á Þjóðminjasafninu í gærkvöldi. Þær eru augljóslega til og er sjálfsagt að við fáum að sjá þær líka.

Ég vona að hv. þm. Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar, hafi skilning á því að í þeirri stöðu sem íslenskt samfélag er í og í því séríslenska skuldafangelsi sem Íslendingar eru í með verðtryggð lán er ekki hægt — og ég tala fyrir mitt leyti — að samþykkja tillögu af þessu tagi. Hún veltir of miklum byrðum á heimilin. Það er alls ekki hægt að samþykkja þetta þegar enginn skilningur virðist vera sýndur á því að það þarf að takast á við hið séríslenska skuldafangelsi sem birtist í verðtryggingunni. Það þarf að takast á við þann forsendubrest sem varð á íslenskum lánamarkaði sem birtist í því að höfuðstóll lána hefur hækkað upp úr öllu valdi. Það þarf að sýna skilning á því að það eru þingmenn hér inni sem ekki geta stuðlað frekar að hækkun höfuðstóls í hinu séríslenska skuldafangelsi. Ég hlýt að spyrja hv. formann efnahags- og skattanefndar hvort hann hafi skilning á þessum sjónarmiðum og hvort hann ætli þá að reyna að stuðla að því að tekist verði á við þennan vanda, að tekist verði á við verðtrygginguna og hún jafnvel afnumin í skrefum. Að hugsanlega verði sett þak á hversu mikið vísitala neysluverðs getur haft áhrif á verðtryggðar skuldbindingar eða eitthvað í þeim dúr eða hvort hv. þingmaður ætlar á einhvern hátt að beita sér fyrir því að farið verði í (Forseti hringir.) lækkun höfuðstóls á íslenskum lánum.