137. löggjafarþing — 10. fundur,  28. maí 2009.

olíugjald og kílómetragjald o.fl.

56. mál
[20:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ágætu þingmenn. Eins og fram hefur komið í ræðum meðnefndarmanna minna höfum við Íslendingar þróað í okkar efnahagslífi býsna flókið og stagbætt kerfi með víxlverkunum og verðtryggingum sem gera það að verkum að ákvarðanir eins og sú sem hér er tekin geta haft áhrif á ýmsa aðra liði. Það eru alveg nákvæmlega sömu áhrif og sömu aðgerðir fyrr í vetur höfðu þá og Sjálfstæðisflokkurinn fór fyrir og Framsóknarflokkurinn greiddi atkvæði með. Ég held hins vegar að það sé algerlega óhjákvæmilegt að eftir þeim leiðangri sem lýst var yfir í stjórnarsáttmálanum, um að fela Seðlabankanum að kanna með hvaða hætti draga megi úr áhrifum verðtryggingarinnar í okkar efnahagslífi og samfélagi og þeim víxlverkunum sem hún veldur, sé ýtt og ég gerði grein fyrir því á fundi nefndarinnar að við mundum nýta nefndardagana í það að taka stöðuna á þeirri vinnu og þeim áætlunum sem um hana eru.

Ég verð hins vegar að leiðrétta það að þau áhrif sem þetta getur haft á persónuafsláttinn, sem væru þó raunar sennilega einu jákvæðu hliðaráhrifin í því að skattar á þessar vörur, áfengi, tóbak og bensín, yrðu til þess að létta sköttunum hjá láglaunafólki og fólki með lægri meðaltekjur, eru þættir sem lúta að fjárlögum næsta árs (Gripið fram í.) og verður tekin ákvörðun um í fjárlagafrumvarpi sem fram kemur á hausti komanda. Þessum aðgerðum er auðvitað fyrst og fremst miðað að því að vinna bug á þeim vanda sem við eigum við að stríða á yfirstandandi ári sem er einfaldlega sá að við höfum farið 20 þúsund milljónum (Gripið fram í.) fram úr þeim hallarekstri sem upp var lagt með. Við því verður einfaldlega að bregðast. Þegar við horfum á þann mikla vanda er það einfaldlega býsna augljóst að það eru málefnaleg sjónarmið fyrir því að við núverandi aðstæður þurfum við að greiða hærra verð fyrir áfengi, tóbak, bensín og dísilolíu. En það er fullt tilefni til þess fyrir Alþingi Íslendinga að fara ítarlega og vel yfir víxlverkanir, hliðaráhrif og þau áhrif sem þetta kerfi allt saman hefur á fjárlagagerðina fyrir næsta ár og lágmarka hin neikvæðu áhrif sem af því verða.