137. löggjafarþing — 10. fundur,  28. maí 2009.

olíugjald og kílómetragjald o.fl.

56. mál
[21:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé, eins og fram hefur komið í máli mínu, full ástæða til þess hjá fjölmörgum þingmönnum að hafa áhyggjur af stöðu heimilanna, af versnandi hag ríkissjóðs, af þeim gjaldahækkunum sem nauðsynlegar eru og þeim erfiðu afleiðingum sem þær geta haft fyrir ýmsa hópa í samfélaginu. Og ekki síst þeim mikla vef alls kyns tenginga fram og til baka og víxlverkunum í þeim vísitölum sem við höfum byggt upp til þess að reyna að lifa við þann óstöðugleika sem einkennt hefur efnahagslíf okkar um áratugaskeið.

Það er sannarlega stærsta verkefni okkar í efnahagsmálum þjóðarinnar að sigrast á þessari arfleifð, vinna okkur út úr óstöðugleikanum í stöðugleika og losna út úr verðtryggingunni og víxlverkunum.

En hvernig best er að vinna að því treysti ég mér ekki til að svara hér í andsvari og jafnvel ekki á þeim stutta tíma sem við höfum til umfjöllunar á þessu máli. En ég hef hins vegar gert efnahags- og skattanefnd grein fyrir því að við tökum strax nú á nefndardögum tíma í að fara yfir þá vinnu sem í gangi er í þessum málum. Ég tel að nefndir þingsins eigi að hafa frumkvæði að því að vinna að brýnum málefnum eins og hér um ræðir og mikilsverðum efnahagsmálum eins og áhrifum verðtryggingarinnar og víxlverkunum í efnahag okkar, þjóðarbúskap og ríkisfjármálum. Ég treysti á gott samstarf við nefndarmenn í efnahags- og skattanefnd um þá vinnu.