137. löggjafarþing — 11. fundur,  28. maí 2009.

olíugjald og kílómetragjald o.fl.

56. mál
[23:16]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Eins og kom fram hjá hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni var á milli 2. og 3. umr. farið yfir nokkrar áhyggjur sem vöknuðu hjá ákveðnum þingmönnum af miklum neikvæðum áhrifum málsins á fjárhag ríkissjóðs. Við fundum út úr því að þar hefði skeikað einu núlli en ég bý svo vel að því sem formaður efnahags- og skattanefndar að hafa ekki færri en fjóra hagfræðinga hjá mér í nefndinni og þakka ég þeim fyrir að hafa greitt úr þessu (Gripið fram í.) máli öllu saman.

Það er frá því að greina að þau markmið sem málið varðar fyrst og fremst, sem eru fjárlög yfirstandandi árs og að vinna að þeim vanda sem við blasir nú, standa og hliðaráhrif eru ekki á yfirstandandi ári.

Venjan er sú að þær kostnaðartölur sem birtar eru í frumvörpunum eru um nettóáhrif skattabreytinganna. Það kom fram á fundi nefndarinnar í dag að tekið hefði verið tillit til áætlaðs samdráttar í sölu á þeim vörum sem hér um ræðir og enn fremur er venjan sú að óbein áhrif af þessum breytingum eru innreiknuð í þær tölur sem fyrir þinginu liggja og við fengum Þorstein Þorgeirsson, yfirmann tekjuskrifstofu fjármálaráðuneytisins, til að fara yfir þær venjur með okkur þó að hann gæti ekki staðfest nákvæmlega hversu langt væri gengið í því að tína inn hin óbeinu áhrif.

Það er auðvitað svo að hér er um að ræða hækkanir á sköttum og gjöldum og það er óhjákvæmilegt að það hafi umtalsverðar neikvæðar afleiðingar fyrir ýmsa hópa í samfélaginu. En hér er verið að bregðast við verulegum fjárhagsvanda ríkissjóðs og þetta er fyrsta skrefið af þeim mörgu erfiðu skrefum sem við þurfum að stíga hér á næstu mánuðum og missirum. Ég þakka hv. nefndarmönnum fyrir gott samstarf um þetta og hef fyrir hönd nefndarinnar komið því á framfæri við fjármálaráðuneytið að framvegis verði í þessu efni lagðar fyrir sundurliðaðri og greinarbetri upplýsingar um hin óbeinu áhrif svo þingmenn geti með gleggri hætti en verið hefur fram að þessu áttað sig á hinum ýmsu hliðaráhrifum frumvarpa.