137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[13:59]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar svona merkilegt mál kemur fram gefur sú er hér stendur sér auðvitað tíma til að skoða og lesa málið, enda tel ég hér afar gott mál á ferðinni. Hins vegar vildi ég draga það fram að þó að sá samhljómur sem hér er vitnað til um áframhaldandi umræðu hafi náðst á milli allra þeirra aðila sem áttu sæti í þessari nefnd er engu að síður mikilvægt að draga það fram hvernig sérálitum var síðan skilað og um hvað þau snerust vegna þess að þar liggur meginniðurstaðan. Mikill meiri hluti þeirra aðila sem áttu sæti í nefndinni skilaði einu áliti. Samfylkingin, Alþýðusamband Íslands, Viðskiptaráð, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu, Samtök ferðaþjónustunnar skrifuðu undir það að niðurstaða þeirra eftir þetta víðtæka samráð og hagsmunamat væri sú að sækja bæri um aðild að Evrópusambandinu og leggja síðan þann samning undir atkvæði þjóðarinnar. Þetta vildi ég draga fram.

Síðan skilaði Framsóknarflokkurinn sínu eigin áliti sem var í raun og veru bara stefna flokksins frá landsfundi hans. BSRB skilaði hlutlausu áliti þar sem þeir sögðust ekki taka afstöðu. Sjálfstæðisflokkurinn skilaði sínu áliti og Vinstri hreyfingin – grænt framboð sínu. Að öðru leyti var samstaða milli þeirra aðila sem ég taldi upp áðan.

Það er þetta, virðulegi forseti, sem ég taldi mikilvægt að draga fram í þessari umræðu þó svo að lægsti mögulegi samnefnari hafi verið sá sem nefndur er í annars ágætri greinargerð með þessu ágæta máli hv. þingmanns.