137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

þjóðlendur.

[13:54]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Varðandi þetta mál hefur engin ákvörðun í sjálfu sér verið tekin um annað en það að ég féllst á, eftir að hafa skoðað þá vinnu sem lá nokkurn veginn tilbúin í ráðuneytinu og kostað hafði verið umtalsverðum fjármunum til að útbúa, að hún yrði birt.

Hvað verður síðan um framhaldið er í sjálfu sér sjálfstætt mál en ég verð þó að segja það sem ég sagði áðan að þeim mun lengra sem komið er í framkvæmdinni þeim mun vandséðara er að það sé auðvelt mál að snúa við eða breyta í grundvallaratriðum aðferðafræðinni vegna þeirra jafnræðissjónarmiða og ýmissa slíkra hluta sem þá koma upp. Þessi leiðangur var farinn til að eyða réttaróvissu og koma á hreint skipulagsmörkum og almannaeignarhaldi á þeim svæðum einkum á miðhálendinu sem enginn gat sannað eignarrétt sinn á, hvorki einstaklingar, sveitarfélög eða ríkið, og þannig verður til hugtakið þjóðlenda. Ég held að það sé gilt í sjálfu sér að reyna að fá botn í þessi mál.

Hins vegar andmæli ég (Forseti hringir.) því að ekki hafi orðið breyting þarna á hvað varðar aðkomu ríkisins eða kröfulýsingu ríkisins. Og ég endurtek að ég var sannfærður um að svo væri í þessu tilviki, t.d. er tekið meira mið af hæðarlínum og öðru slíku en (Forseti hringir.) gert var í fyrri kröfulýsingu.