137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

útflutningsskylda dilkakjöts.

8. mál
[14:17]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er eins og endranær. Hæstv. ráðherra svarar aldrei spurningum sem fyrir hann eru lagðar. Hins vegar held ég að ég hafi getað skilið ræðu hans einhvern veginn þannig að hann hafi í hjarta sínu áhuga á því að taka upp útflutningsskyldu en telji sig ekki hafa til þess pólitískan styrk í ríkisstjórninni. Með öðrum orðum, að hann hafi verið þar ofurliði borinn. Þetta er auðvitað nokkuð skýrt svar að því leyti til að þegar maður les í orð hans má a.m.k. draga þessa ályktun. Það kemur mér út af fyrir sig ekkert á óvart. Ég þekki alveg þau sjónarmið sem samstarfsflokkur hæstv. ráðherra hefur varðandi þessa hugmynd um útflutningsskylduna.

Ég get alveg tekið undir það sem hér hefur verið sagt að það megi vel hugsa sér annars konar útfærslu á útflutningsskyldunni og gera einhverjar breytingar frá því sem áður var. Það er auðvitað skynsamlegt að reyna að læra af reynslunni en það breytir ekki því að eins og ég nefndi áðan eru aðstæður á kjötmarkaðnum að ýmsu leyti öðruvísi en þær hafa verið. Það eru erfiðleikar núna á kjötmarkaðnum og þess vegna standa tiltekin rök til þess að við gerum þessar breytingar.

Það er alveg rétt að á sínum tíma varð það niðurstaðan í samningum ríkisvaldsins og bænda að falla frá útflutningsskyldunni gegn því að greiða 300 millj. til viðbótar inn í samninginn. Ég rakti það að tvennt hefði breyst, annars vegar þetta sem ég nefndi með kjötmarkaðinn og hins vegar hitt að við höfum gripið til þess að skerða búvörusamninginn og þess vegna hefði ég talið að það væri útlátalaust fyrir ríkið að opna á þessa heimild að nýju. Það kostar enga peninga fyrir ríkissjóð. Það liggur líka fyrir vilji bænda í þessum efnum. Það hefur margoft komið fram, m.a. frá Samtökum sauðfjárbænda sem ræddu um þessi mál við mig á haustdögum. Þess vegna ítreka ég þá spurningu til hæstv. ráðherra hvort hann hyggist ekki beita sér í þessu máli, vitandi að um þetta kunni að vera ansi víðtækur stuðningur, við vitum um stuðning bænda. Ég tel að það væri ómaksins vert fyrir hæstv. ráðherra að láta á það reyna hvort hann hefði til þess pólitískan stuðning á Alþingi.