137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

starfsemi banka og vátryggingafélaga.

19. mál
[14:31]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir að vekja máls á þessum mikilvægu spurningum, aðskilnaði viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi annars vegar og fjárfestingarfélaga og vátryggingafélaga hins vegar.

Hér var útbýtt nýlega, eins og hæstv. ráðherra nefndi, nýju frumvarpi um vátryggingastarfsemi. Ég tel mjög mikilvægt að hv. viðskiptanefnd fái mjög gott tækifæri til að fara vandlega yfir þessi mál sem hér hafa verið rædd í yfirferð um það frumvarp, ekki síst í ljósi þeirra frétta sem hafa verið uppi á undanförnum dögum um erfiða stöðu einstakra vátryggingafélaga og bótasjóða þeirra. Ég hef af því nokkrar áhyggjur og lýsti því fyrr í vetur að þetta frumvarp væri svolítið í samræmi við tíðarandann 2007 og þyrfti að koma því til ársins 2009 með einhverjum hætti (Forseti hringir.) og ég vona að hv. viðskiptanefnd auðnist það að þessu leyti.